Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Góðar fréttir

Þetta bendir til að þjóðir heims séu farnar að taka mark á sífellt stækkandi hópi vísindamanna sem efast um að maðurinn hafi umtalsverð áhrif á hlýnun jarðar.
mbl.is Samkomulagið í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtum 30 miljarða auðlindarentu í sjávarútvegi til að borga

Ein leið til að hafa upp í IceSave væri að bjóða kvótana upp og fá 30 miljarða árlega auðlindarentu af fiskveiðum við Ísland.

Sjá nánar hér: http://www.uppbod.net/30-miljarda-audlindarenta.aspx

Ekki verður séð að ráðstöfun LÍÚ manna á rentunni undanfarin ár hafi farið í mikið annað en misheppnuð útrásaræfintýri og einkaneyslu þeirra.


mbl.is Verður þjóðinni ekki ofviða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei við fyrningarleið þýðir miljarðatugi aukalega til erlendra kröfuhafa gömlu bankanna

Hafi einhvern tímann verið rétti tíminn til að fyrna fiskveiðikvóta er það einmitt núna. Þessar vikurnar er verið að ganga frá samningum um uppgjör á milli gömlu og nýju bankanna. Mikil skuldsetning útgerðarfyrirtækja hjá gömlu bönkunum er að sliga útgerðina. Ástæðan er meðal annars uppkaup á gjafakvótum þeirra sem hafa farið úr greininni, ásamt þátttöku í útrásarævintýrum.

Íslenska þjóðin þarf nú að gjalda dýru verði mistök og ábyrgðarleysi þeirra sem bera ábyrgð á kreppunni. En ekki að öllu leyti. Léleg áhættustýring gömlu bankanna og erlendra lánardrottna þeirra gagnvart útgerð á ekki og þarf ekki að bitna á íslenskum almenningi. Þeir sem veittu há lán til útgerðarfyrirtækja gegn veði í kvóta sem þau gátu ekki sannað eignarrétt sinn á, eiga að taka skellinn, ekki almenningur.
 
Treysta verður því að samningamenn íslenska ríkisins taki tillit til þess að fyrna á kvótann þegar þeir semja um verðmæti sjávarútvegslána sem nýju ríkisbankarnir kunna að yfirtaka frá þrotabúum gömlu bankanna. Annars væru þeir að skaða íslenska ríkið um miljarðatugi ef ekki meira.

Skuldir útgerðar eru á bilinu 300-600 miljarðar eftir því hver segir frá. Kvótaeign útgerðar er bókfærð á um 200 miljarða. Árlegt verðmæti fiskafla upp úr sjó er um 100 miljarðar. Er ekki nokkuð ljóst að allur arður af útgerð næstu árin myndi fara í að borga af lánum ef kvótinn verður ekki fyrndur?

Það ræðst væntanlega á næstu dögum eða vikum hver verður niðurstaða í þessu máli. Miklu skiptir að stjórnvöld standi sig í þessu máli, gæti hagsmuna almennings og láti spunameistara LÍÚ ekki verða til þess að röng ákvörðun sé tekin.


Áróðursherferð LÍÚ

LÍÚ hefur kosið að beita hræðsluáróðri til að verja hagsmuni stærstu félaga sinna í ljósi núverandi efnahagsástands. Reynt er að hræða fólk með því að störf tapist, fiskur verði ekki veiddur, markaðir tapist, nýju ríkisbankarnir fari á hausinn og landsbyggðin fari í auðn. Lítið fer fyrir rökstuðningi LÍÚ fyrir því að þetta þurfi að gerast.

Skipta má núverandi útgerð í þrennt:

- Ofurskuldsettar útgerðir sem eru bæði tæknilega og raunverulega gjaldþrota óháð gjafakvótum eða fyrningu. Verðmæti kvótaeignar þeirra lendir í vasa kröfuhafa sem flestir eru erlendir. Fyrning minnkar þó verulega það sem kröfuhafarnir fá í sinn hlut.

- Mikið skuldsettar útgerðir sem gætu þraukað með áframhaldandi gjafakvótum en myndu ekki lifa af án þeirra. Þær fara í þrot við fyrningu og kröfuhafar hirða kvótann. Fyrningin minnkar hlut kröfuhafa í arði af fiskveiðum næstu árin.

- Lítið skuldsettar og vel reknar útgerðir sem myndu auðveldlega standa sig á uppboðsmarkaði fyrir kvótaheimildir þrátt fyrir minnkandi gjafakvótahlutfall með fyrningarleið.

Ljóst er að við fyrningarleið myndu fleiri útgerðir fara í þrot en með óbreyttu kerfi. Fiskurinn, skipin og sjómennirnir hverfa hins vegar ekki, þannig að nógir myndu verða til að taka við að veiða þann fisk sem er í boði. Umframafkastageta í sjávarútvegi er það mikil að ekki væri vandamál fyrir þá sem eftir stæðu að taka þann kvóta sem óhætt er að veiða.

Skuldahali útgerðarinnar kemur nýju bönkunum nákvæmlega ekkert við, ennþá. Helst er að sjá að baráttuaðferð LÍÚ byggi á því að ná skuldahalanum inn í nýju bankana sem gerir það erfitt að fyrna kvótana öðru vísi en að stórskaða rekstur þeirra.

LÍÚ reynir að tengja gjafakvótakerfið við hagsmuni landsbyggðarinnar. Alþekkt er þó að margar byggðir hafa verið grátt leiknar þegar kvóti hefur verið seldur á brott.
 
Útgerðin hefur haft hundruð miljarða í arð af gjafakvótunum á undanförnum árum. Eigendur útgerðarinnar hafa hins vegar blóðmjólkað reksturinn þannig að núna standa eftir ofurskuldsett fyrirtæki sem mörg hver stefna í gjaldþrot. Fyrning flýtir fyrir nauðsynlegri endurnýjun og aðkomu nýrra útgerðaraðila sem koma inn á eðlilegum rekstrarforsendum.


Fyrning og uppboð á kvótum

Sátt um núverandi kerfi er ímyndun. Útgerðarmenn tala um nauðsyn þess að skapa stöðugleika í sjávarútvegi. Ein forsenda þess er afnám gjafakvóta. Atvinnugrein með rekstrarforsendur í andstöðu við meirihluta þjóðarinnar getur aldrei vænst stöðugleika í rekstri.

Fréttir berast af því að ungt fólk sé áhugalaust um að hefja störf í sjávarútvegi. Það er skiljanlegt, ungt fólk ekki síður en aðrir áttar sig á því að greinin byggir ekki á eðlilegum rekstrarforsendum og finnur sér annan starfsvettvang.

Staða ríkissjóðs er mjög erfið núna. Til skoðunar hlýtur að koma að útfæra fyrningarleiðina á skemmri tíma en 20 árum til að afla meiri tekna. Ég skora á ríkisstjórnina að láta ekki hræða sig frá því að framfylgja boðaðri stefnu í sjávarútvegsmálum.

Lýst hefur verið uppboðskerfi fyrir fyrnda kvóta sem er sanngjarnt, eykur hagkvæmni, tekur út hvata til brottkasts, fyrirbyggir byggðaröskun, auðveldar nýliðun og skilar ríkinu auðlindarentu af fiskimiðunum í samræmi við greiðslugetu útgerðar. Sjá grein undirritaðs í Morgunblaðinu 28. maí síðastliðinn og nánar á vefsíðunni www.uppbod.net.

Höfundur er verkfræðingur og tölvunarfræðingur. Á yngri árum tók hann þátt í útgerð og stundaði sjómennsku á minni bátum. 

(grein þessi birtist í Morgunblaðinu 21. júní 2009)


Fyrningin er BEST fyrir dreifbýlið

Mér finnst þetta undarlegt val á fyrirsögn fyrir þessa frétt Mbl. Blaðamaður virðist gefa sér að fyrningin yrði slæm og myndi koma verst út fyrir dreifbýlið.

Fyrningarleið er hins vegar pólitískt umdeilt mál, flokkar sem styðja hana hafa meirihluta á Alþingi en minnihlutaflokkar eru á móti.

Mín skoðun er sú að fyrningin sé til bóta hvort sem hún gerist í sjávarútvegi í þéttbýli eða dreifbýli. Ef henni verður fylgt eftir með kvótauppboðum mun nauðsynleg endurnýjun og uppbygging hefjast í sjávarútvegi, ekki síst úti á landi. Ofurskuldsett útgerðarfyrirtæki munu hætta rekstri í stað þess að nota arð nota allan sinn arð í að greiða skuldir næstu 10 árin.

Tekjur sem kæmu af kvótauppboðum mætti nýta til uppbyggingar á landsbyggðinni. Ef ekki verður fyrnt mun arður útgerðarinnar hins vegar lenda hjá erlendum kröfuhöfum í gömlu bankanna.

Sjá nánar um tillögu að uppboðskerfi fyrir sjávarútveg hér: http://www.uppbod.net

 


mbl.is Fyrningin yrði verst í dreifbýli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það væri frekar pólitískt sjálfsmorð að standa ekki við kosningaloforð strax eftir kosningar

Ef ríkisstjórnin lætur undan LÍÚ í þessu máli á hún ekki mikinn tilverurétt. LÍÚ á alveg eftir að færa rök fyrir þessum hræðsluáróðri sínum.

Útgerðarfyrirtæki með glórulausri skuldsetningu fara á hausinn óháð fyrningu. Fiskurinn, skipin og sjómennirnir hverfa hins vegar ekki þannig að nógir eru til að koma í staðinn til að veiða á eðlilegum forsendum með því að greiða gjald á uppboði fyrir notkun auðlindarinnar.


mbl.is „Pólitískt sjálfsmorð“ að kollvarpa sjávarútveginum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrningin er vandamál gömlu bankanna, ekki nýju bankanna!

Það er ekkert sem segir að nýju bankarnir þurfi að taka yfir þessi lán á fullu gengi. Léleg áhættustýring gömlu bankanna og erlendra lánardrottna þeirra á ekki að koma niður á íslenska ríkinu.
mbl.is „Hendið þessari hugmynd“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrningin hefur góð áhrif á sjávarútveginn

Ef ákveðið verður að bjóða upp kvótann í kjölfar fyrningar munu áhrifin verða jákvæð.

Nýir aðilar munu fá aðgang að sjávarútvegi sem hafa ekki komist að til þessa vegna gjafakvótagreifa sem hafa einokað greinina óháð því hvort reksturinn sé góður eða slæmur. 

Þar fyrir utan mun fyrning leiða til þess að miljarðatugir renna í ríkissjóð sem annars myndu renna til kröfuhafa í þrotabú gömlu bankanna.

Sjá tillögu að útfærslu kvótauppboða í bloggfærslu minni hérna:

http://finnur.blog.is/blog/finnur/entry/886270/

 


mbl.is Nefnd skoðar áhrif fyrningarleiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrningarleið og hvað svo?

Stefna ríkisstjórnarinnar er að fyrna 5% af kvótanum árlega þannig að eftir 20 ár verði hætt að úthluta kvóta með núverandi kerfi. Stjórnarsáttmálinn er fáorður um það sem á að taka við. Rætt er um sanngjarnt kvótakerfi þar sem hætt er að gefa kvóta en eftir er að skilgreina útfærslu nánar.

Vel má ímynda sér að andstaða við fyrningu stafi af einhverju leiti af því að lítið er vitað um það sem tekur við. Óháð því hvaða leið verður valin, verður ekki undan því vikist að velja þarf þá sem eiga að veiða fiskinn ef fleiri vilja veiða en framboð af kvóta segir til um.

Eina hugsanlega og ásættanlega niðurstaðan er sú að kvótinn verði boðinn upp. Allt annað veldur deilum og leiðir til spillingar. Hins vegar skiptir máli hvernig staðið er að því að bjóða kvótann upp.

Nauðsynlegt er að þetta sé útfært þannig að hagkvæmni í rekstri útgerða ráði því hverjir eigi mesta möguleika á að fá kvótann en ekki aðgangur að fjármagni. Möguleiki þarf að vera á endurnýjun í greininni. Einnig þarf að sjá til þess að röskun verði sem minnst og kvótinn dreifist eðlilega um landið. 

Tillaga að uppboðskerfi fyrir kvóta

- Allur veiddur fiskur fari á fiskmarkað til að skapa viðmiðun um greiðslur. Í þeim tilvikum þar sem erfitt er að koma fiskinum inn á markaðsgólf eins og t.d. hjá frystitogurum er hægt að miða við meðal markaðsverð þegar fiskur er veiddur.

- Allur kvótinn sé boðinn til sölu á uppboði til eins árs í senn. Skilyrði sé sett um að kvótinn sé nýttur innan 12 mánaða.

- Útgerð geri tilboð í ákveðið magn af tiltekinni tegund með því að bjóða ákveðna prósentu af aflaverðmæti sem fæst við löndun á markaði. Kvótagjald sé greitt sé um leið og fiskmarkaður greiðir fyrir fisk eftir löndun.

- Heildarkvótanum yrði skipt niður í nokkra potta eftir landshlutum þar sem byggt yrði á veiðireynslu í landshluta. Með þessu væri gerð krafa um að útgerðarstaður og/eða löndunarstaður útgerðar væri í þeim landshluta sem kvótinn tilheyrir.

- Viðskipti með kvóta innan landshluta yrðu leyfileg innan 12 mánaða tímabils sem kvótinn stendur.

- Kvóti sem útgerðaraðili nær ekki að nýta sé framseldur öðrum. Að öðrum kosti greiðir útgerð kvótagjald eins og meðalverð á markaði segir til um. Ef ekki tekst að framselja kvóta á sömu eða betri greiðsluprósentu en upphaflega tilboðið hljóðaði upp á, þarf upphaflegi útgerðaraðilinn að standa skil á því sem vantar upp á.

Rök fyrir tillögu 

Aðferðin er sanngjörn, skilar þjóðinni eðlilegum arði af auðlindinni, leiðir til hagkvæmrar nýtingar á fiskimiðum og lágmarkar tilkostnað við veiðar. Kerfið er hlutlaust gagnvart útgerðaraðilum.

Hvati til brottkasts hverfur vegna þess að greidd er prósenta af markaðsverðmæti en ekki krónutala af hverju kílói.

Rökin fyrir því að bjóða allan kvótann upp árlega eru þau að ekki er vitað nema eitt ár fram í tímann hversu mikið er óhætt að veiða af hverri tegund. Betri tilboð ættu líka að fást í kvótann þegar útgerð þarf ekki að taka tillit til óvissu um aflamagn langt fram í tímann.

Landshlutaskipting kvótauppboða tryggir að uppboðin leiða ekki til tilfærslna á milli landshluta sem valda mikilli röskun eins og getur gerst í núverandi kvótakerfi.

Greiðsla kvótagjalds við löndun þýðir að ekki er þörf á fjármögnun kvótakaupa áður en veiðar hefjast. Þess vegna gætu duglegir sjómenn hafið útgerð með því að leigja bát á meðan þeir eru að komast af stað.

Framseljanlegir kvótar eftir upphaflegt uppboð skapa nauðsynlegan sveigjanleika. Útgerðir hafa möguleika á viðskiptum með kvóta sín á milli innan kvótaársins. Kanna mætti þann möguleika að í stað þess að allur kvótinn yrði boðinn upp einu sinni á ári, væru uppboð t.d. ársfjórðungsleg eða mánaðarleg þar sem 1/4 eða 1/12 hluti árskvótans væri boðinn upp í senn. 

Kvótagjald sem miðast við prósentu af aflaverðmæti hefur þann kost að áhætta af sveiflum í markaðsverði hefur minni áhrif á afkomu útgerðar en fast gjald per kg af fiski. Einnig hagnast báðir aðilar, það er ríki og útgerð ef markaðsverð er hátt.

 

Þar sem tilboð í kvóta felur ekki í sér útgjöld í upphafi er tekið á því í tillögu hvernig fyrirbyggja þarf að útgerðir geri tilboð í meira magn af kvóta en þær hafa raunveruleg not fyrir. Skilyrði um skil á greiðsluprósentu ættu að fyrirbyggja að gerð séu tilboð í mikið magn af kvóta með það í huga að braska með hann. Hugsanlega þyrfti einnig að setja skilyrði um að bátar sem útgerð hefur yfir að ráða hafi nægilega veiðigetu til að veiða magn sem boðið er í.

 

Allt tal um að sjávarútvegurinn geti ekki skipulagt sig í kvótauppboðskerfi er hræðsluáróður. Fiskverkendur sem byggja á fiski frá fiskmörkuðum kaupa fisk daglega á uppboði án þess að séð verði að það valdi þeim vandræðum. Olíufélög kaupa olíu á markaði til að dreifa og selja án þess að kvarta. 

 

Ljóst er að þegar stórt hlutfall af kvóta á Íslandsmiðum verður boðið upp, mun kvótagjaldið lækka mikið frá þeim jaðarverðum sem nú eru í gangi.

  

Höfundur er verkfræðingur og tölvunarfræðingur. Á yngri árum tók hann þátt í útgerð og stundaði sjómennsku á minni bátum.

 (birt í Morgunblaðinu 28. maí 2009) 

Rangar skoðanir í loftslagsmálum brottrekstrarsök á Mbl.?

Sigurður Grétar Guðmundsson pípulagningameistari skrifaði grein í Morgunblaðið í dag, 27. nóv. þar sem hann kveður lesendur eftir 16 ára samfylgd í dálkum sínum Lagnafréttir í Fasteignablaði Morgunblaðsins.

Þar sem ég hef oft gluggað í dálka hans og haft gagn og gaman af, fór ég að lesa hvað hann skrifaði um ástæður þess að hann hætti.

Í stuttu máli var honum einfaldlega sagt að pistill frá honum hefði verið yfirfarinn af "hlutlausum aðila" og hefði reynst vera faglega rangur. Ekki fékkst uppgefið hver þessi "hlutlausi aðili" var.

Einnig var sagt frá því að margar kvartanir hefðu borist vegna skrifa hans um loftslagsmál. Ekki tek ég undir það. Mér fannst skrif Sigurðar um þau efni mun skynsamlegri en gengur og gerist í Morgunblaðinu um þau mál. Að sjálfsögðu má deila um hvort hann sé ekki komin of langt frá efni dálksins í þeim skrifum en þá hefði verið einfalt að flytja greinarnar yfir í viðhorfsdálk eða almennar greinar blaðsins.

Magnús Jónsson þáverandi Veðurstofustjóri skrifaði grein fyrir 10 árum eða svo í Morgunblaðið þar sem hann varaði við skoðanakúgun í tengslum við loftslagsmál. Ég sé ekki betur en það hafi verið full ástæða til.


Íslenskir veðurfræðingar með efasemdir um gróðurhúsaáhrif?

Í desember síðastliðnum birtust stutt viðtöl við Þór Jakobsson og Trausta Jónsson veðurfræðinga í Viðskiptablaðinu, sjá grein:

Viðtal við Þór og Trausta

Þeir voru spurðir einfaldrar spurningar: Eiga sér stað loftslagsbreytingar af mannavöldum?

Svör þeirra voru athyglisverð svo ekki sé meira sagt. Báðir gerðu skýran greinarmun á mati sínu á loftslagsbreytingum sem vísindamenn annars vegar og skoðun á því hvort ástæða væri til aðgerða hins vegar, sem væri pólitísk spurning. Því miður eru margir aðrir vísindamenn sem sjá ekki ástæðu til að greina þarna á milli.

Þór taldi málið flókið og spurningunni vandsvarað. Ef hann ætti tilneyddur að gefa upp prósentu um hlýnun af mannavöldum nefndi hann 10-15%. Hann taldi reyndar að það væri það alvarlegt að ástæða væri til að grípa til aðgerða.

Trausti hinsvegar nefndi enga tölu en sagði ljóst að hlýnun væri nær örugglega að einhverju leyti af mannavöldum. Hann sagði málið flókið og margþætt og erfitt að fullyrða nokkuð um það. Trausti vildi hins vegar ekkert segja til um hvort hann teldi að ástæða væri að grípa til aðgerða sem hann taldi pólitíska spurningu eða jafnvel siðferðilega.

Þessi svör eru í mikilli andstöðu við fullyrðingar ýmissa vísindamanna sem halda því fram að 90% af hlýnuninni undanfarið stafi nánast örugglega af mannavöldum og að málið sé afgreitt fræðilega. Einn veðurfræðingar frá Veðurstofu Íslands talaði um vísindalega staðreynd í þessu samhengi í blogg athugasemd hjá Einari Sveinbjörnssyni veðurfræðingi, sjá: http://esv.blog.is/blog/esv/entry/251390/#comments

Sem betur fer eru Þór og Trausti ekki einir vísindamanna um að vera varkárir í yfirlýsingum um hlýnun af mannavöldum. Því miður er eðli fjölmiðla þó þannig að þeir sem hafa uppi stórkarlalegar yfirlýsingar fá mestu umfjöllunina jafnvel þó að vísindagrunnurinn sé veikur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband