Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Krónan margfaldaði tjón almennings af bankahruninu.

Maðurinn hefur greinilega ekki sjálfur upplifað kjaraskerðingu og lánahækkanir af völdum krónunnar.

Ef Íslendingar hefðu haft evru eða dollar í stað krónunnar þegar bankarnir hrundu:

  • Hefðu líkast til verið starfandi útibú erlendra banka á Íslandi sem hefðu haldið áfram starfsemi eins og ekkert hefði í skorist þegar íslensku bankarnir hrundu.
  • Hefði ekki skollið á gjaldeyriskreppa sem stórskaðaði utanríkisviðskipti Íslendinga.
  • Hefði þjóðarframleiðsla Íslendinga ekki minnkað um ca. 40% á fyrsta árinu eftir hrunið mælt í alþjóðlegum myntum. Líkast til frekar um 10% sem var hlutur bankanna í þjóðarframleiðslunni fyrir hrun.
  • Hefði verðlag ekki hækkað um 40%.
  • Hefðu gengistryggð og verðtryggð lán einstaklinga og fyrirtækja ekki hækkað um 30-100%.
  • Hefðu Íslendingar ekki þurft að leggjast á hnén til að biðja AGS og nágrannaríki um gjaldeyrislán.

  • Væru Íslendingar ekki að borga miljarðatugi ef ekki meira árlega í vexti af lánum til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn.
  • Hefði fjöldi fyrirtækja ekki orðið tæknilega og mörg raunverulega gjaldþrota vegna gengishrunsins.
  • Mun færri hefðu misst vinnuna vegna þess að mun færri fyrirtæki hefðu orðið gjaldþrota.

Bankahrunið var mikið áfall fyrir efnahagslíf Íslendinga. Gjaldeyriskreppan sem fylgdi í kjölfarið og afleiðingar hennar ollu margfalt stærra áfalli, sérstaklega fyrir almenning.

Þess vegna er með ólíkindum að einhverjir skuli nú koma fram og lofa kosti krónunar við að takast á við áfallið sem var að miklu leyti tilkomið einmitt vegna krónunnar.


mbl.is Wolf segir krónuna reynast vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrningarleið og hvað svo?

Stefna ríkisstjórnarinnar er að fyrna 5% af kvótanum árlega þannig að eftir 20 ár verði hætt að úthluta kvóta með núverandi kerfi. Stjórnarsáttmálinn er fáorður um það sem á að taka við. Rætt er um sanngjarnt kvótakerfi þar sem hætt er að gefa kvóta en eftir er að skilgreina útfærslu nánar.

Vel má ímynda sér að andstaða við fyrningu stafi af einhverju leiti af því að lítið er vitað um það sem tekur við. Óháð því hvaða leið verður valin, verður ekki undan því vikist að velja þarf þá sem eiga að veiða fiskinn ef fleiri vilja veiða en framboð af kvóta segir til um.

Eina hugsanlega og ásættanlega niðurstaðan er sú að kvótinn verði boðinn upp. Allt annað veldur deilum og leiðir til spillingar. Hins vegar skiptir máli hvernig staðið er að því að bjóða kvótann upp.

Nauðsynlegt er að þetta sé útfært þannig að hagkvæmni í rekstri útgerða ráði því hverjir eigi mesta möguleika á að fá kvótann en ekki aðgangur að fjármagni. Möguleiki þarf að vera á endurnýjun í greininni. Einnig þarf að sjá til þess að röskun verði sem minnst og kvótinn dreifist eðlilega um landið. 

Tillaga að uppboðskerfi fyrir kvóta

- Allur veiddur fiskur fari á fiskmarkað til að skapa viðmiðun um greiðslur. Í þeim tilvikum þar sem erfitt er að koma fiskinum inn á markaðsgólf eins og t.d. hjá frystitogurum er hægt að miða við meðal markaðsverð þegar fiskur er veiddur.

- Allur kvótinn sé boðinn til sölu á uppboði til eins árs í senn. Skilyrði sé sett um að kvótinn sé nýttur innan 12 mánaða.

- Útgerð geri tilboð í ákveðið magn af tiltekinni tegund með því að bjóða ákveðna prósentu af aflaverðmæti sem fæst við löndun á markaði. Kvótagjald sé greitt sé um leið og fiskmarkaður greiðir fyrir fisk eftir löndun.

- Heildarkvótanum yrði skipt niður í nokkra potta eftir landshlutum þar sem byggt yrði á veiðireynslu í landshluta. Með þessu væri gerð krafa um að útgerðarstaður og/eða löndunarstaður útgerðar væri í þeim landshluta sem kvótinn tilheyrir.

- Viðskipti með kvóta innan landshluta yrðu leyfileg innan 12 mánaða tímabils sem kvótinn stendur.

- Kvóti sem útgerðaraðili nær ekki að nýta sé framseldur öðrum. Að öðrum kosti greiðir útgerð kvótagjald eins og meðalverð á markaði segir til um. Ef ekki tekst að framselja kvóta á sömu eða betri greiðsluprósentu en upphaflega tilboðið hljóðaði upp á, þarf upphaflegi útgerðaraðilinn að standa skil á því sem vantar upp á.

Rök fyrir tillögu 

Aðferðin er sanngjörn, skilar þjóðinni eðlilegum arði af auðlindinni, leiðir til hagkvæmrar nýtingar á fiskimiðum og lágmarkar tilkostnað við veiðar. Kerfið er hlutlaust gagnvart útgerðaraðilum.

Hvati til brottkasts hverfur vegna þess að greidd er prósenta af markaðsverðmæti en ekki krónutala af hverju kílói.

Rökin fyrir því að bjóða allan kvótann upp árlega eru þau að ekki er vitað nema eitt ár fram í tímann hversu mikið er óhætt að veiða af hverri tegund. Betri tilboð ættu líka að fást í kvótann þegar útgerð þarf ekki að taka tillit til óvissu um aflamagn langt fram í tímann.

Landshlutaskipting kvótauppboða tryggir að uppboðin leiða ekki til tilfærslna á milli landshluta sem valda mikilli röskun eins og getur gerst í núverandi kvótakerfi.

Greiðsla kvótagjalds við löndun þýðir að ekki er þörf á fjármögnun kvótakaupa áður en veiðar hefjast. Þess vegna gætu duglegir sjómenn hafið útgerð með því að leigja bát á meðan þeir eru að komast af stað.

Framseljanlegir kvótar eftir upphaflegt uppboð skapa nauðsynlegan sveigjanleika. Útgerðir hafa möguleika á viðskiptum með kvóta sín á milli innan kvótaársins. Kanna mætti þann möguleika að í stað þess að allur kvótinn yrði boðinn upp einu sinni á ári, væru uppboð t.d. ársfjórðungsleg eða mánaðarleg þar sem 1/4 eða 1/12 hluti árskvótans væri boðinn upp í senn. 

Kvótagjald sem miðast við prósentu af aflaverðmæti hefur þann kost að áhætta af sveiflum í markaðsverði hefur minni áhrif á afkomu útgerðar en fast gjald per kg af fiski. Einnig hagnast báðir aðilar, það er ríki og útgerð ef markaðsverð er hátt.

 

Þar sem tilboð í kvóta felur ekki í sér útgjöld í upphafi er tekið á því í tillögu hvernig fyrirbyggja þarf að útgerðir geri tilboð í meira magn af kvóta en þær hafa raunveruleg not fyrir. Skilyrði um skil á greiðsluprósentu ættu að fyrirbyggja að gerð séu tilboð í mikið magn af kvóta með það í huga að braska með hann. Hugsanlega þyrfti einnig að setja skilyrði um að bátar sem útgerð hefur yfir að ráða hafi nægilega veiðigetu til að veiða magn sem boðið er í.

 

Allt tal um að sjávarútvegurinn geti ekki skipulagt sig í kvótauppboðskerfi er hræðsluáróður. Fiskverkendur sem byggja á fiski frá fiskmörkuðum kaupa fisk daglega á uppboði án þess að séð verði að það valdi þeim vandræðum. Olíufélög kaupa olíu á markaði til að dreifa og selja án þess að kvarta. 

 

Ljóst er að þegar stórt hlutfall af kvóta á Íslandsmiðum verður boðið upp, mun kvótagjaldið lækka mikið frá þeim jaðarverðum sem nú eru í gangi.

  

Höfundur er verkfræðingur og tölvunarfræðingur. Á yngri árum tók hann þátt í útgerð og stundaði sjómennsku á minni bátum.

 (birt í Morgunblaðinu 28. maí 2009) 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband