Nei við fyrningarleið þýðir miljarðatugi aukalega til erlendra kröfuhafa gömlu bankanna

Hafi einhvern tímann verið rétti tíminn til að fyrna fiskveiðikvóta er það einmitt núna. Þessar vikurnar er verið að ganga frá samningum um uppgjör á milli gömlu og nýju bankanna. Mikil skuldsetning útgerðarfyrirtækja hjá gömlu bönkunum er að sliga útgerðina. Ástæðan er meðal annars uppkaup á gjafakvótum þeirra sem hafa farið úr greininni, ásamt þátttöku í útrásarævintýrum.

Íslenska þjóðin þarf nú að gjalda dýru verði mistök og ábyrgðarleysi þeirra sem bera ábyrgð á kreppunni. En ekki að öllu leyti. Léleg áhættustýring gömlu bankanna og erlendra lánardrottna þeirra gagnvart útgerð á ekki og þarf ekki að bitna á íslenskum almenningi. Þeir sem veittu há lán til útgerðarfyrirtækja gegn veði í kvóta sem þau gátu ekki sannað eignarrétt sinn á, eiga að taka skellinn, ekki almenningur.
 
Treysta verður því að samningamenn íslenska ríkisins taki tillit til þess að fyrna á kvótann þegar þeir semja um verðmæti sjávarútvegslána sem nýju ríkisbankarnir kunna að yfirtaka frá þrotabúum gömlu bankanna. Annars væru þeir að skaða íslenska ríkið um miljarðatugi ef ekki meira.

Skuldir útgerðar eru á bilinu 300-600 miljarðar eftir því hver segir frá. Kvótaeign útgerðar er bókfærð á um 200 miljarða. Árlegt verðmæti fiskafla upp úr sjó er um 100 miljarðar. Er ekki nokkuð ljóst að allur arður af útgerð næstu árin myndi fara í að borga af lánum ef kvótinn verður ekki fyrndur?

Það ræðst væntanlega á næstu dögum eða vikum hver verður niðurstaða í þessu máli. Miklu skiptir að stjórnvöld standi sig í þessu máli, gæti hagsmuna almennings og láti spunameistara LÍÚ ekki verða til þess að röng ákvörðun sé tekin.


Áróðursherferð LÍÚ

LÍÚ hefur kosið að beita hræðsluáróðri til að verja hagsmuni stærstu félaga sinna í ljósi núverandi efnahagsástands. Reynt er að hræða fólk með því að störf tapist, fiskur verði ekki veiddur, markaðir tapist, nýju ríkisbankarnir fari á hausinn og landsbyggðin fari í auðn. Lítið fer fyrir rökstuðningi LÍÚ fyrir því að þetta þurfi að gerast.

Skipta má núverandi útgerð í þrennt:

- Ofurskuldsettar útgerðir sem eru bæði tæknilega og raunverulega gjaldþrota óháð gjafakvótum eða fyrningu. Verðmæti kvótaeignar þeirra lendir í vasa kröfuhafa sem flestir eru erlendir. Fyrning minnkar þó verulega það sem kröfuhafarnir fá í sinn hlut.

- Mikið skuldsettar útgerðir sem gætu þraukað með áframhaldandi gjafakvótum en myndu ekki lifa af án þeirra. Þær fara í þrot við fyrningu og kröfuhafar hirða kvótann. Fyrningin minnkar hlut kröfuhafa í arði af fiskveiðum næstu árin.

- Lítið skuldsettar og vel reknar útgerðir sem myndu auðveldlega standa sig á uppboðsmarkaði fyrir kvótaheimildir þrátt fyrir minnkandi gjafakvótahlutfall með fyrningarleið.

Ljóst er að við fyrningarleið myndu fleiri útgerðir fara í þrot en með óbreyttu kerfi. Fiskurinn, skipin og sjómennirnir hverfa hins vegar ekki, þannig að nógir myndu verða til að taka við að veiða þann fisk sem er í boði. Umframafkastageta í sjávarútvegi er það mikil að ekki væri vandamál fyrir þá sem eftir stæðu að taka þann kvóta sem óhætt er að veiða.

Skuldahali útgerðarinnar kemur nýju bönkunum nákvæmlega ekkert við, ennþá. Helst er að sjá að baráttuaðferð LÍÚ byggi á því að ná skuldahalanum inn í nýju bankana sem gerir það erfitt að fyrna kvótana öðru vísi en að stórskaða rekstur þeirra.

LÍÚ reynir að tengja gjafakvótakerfið við hagsmuni landsbyggðarinnar. Alþekkt er þó að margar byggðir hafa verið grátt leiknar þegar kvóti hefur verið seldur á brott.
 
Útgerðin hefur haft hundruð miljarða í arð af gjafakvótunum á undanförnum árum. Eigendur útgerðarinnar hafa hins vegar blóðmjólkað reksturinn þannig að núna standa eftir ofurskuldsett fyrirtæki sem mörg hver stefna í gjaldþrot. Fyrning flýtir fyrir nauðsynlegri endurnýjun og aðkomu nýrra útgerðaraðila sem koma inn á eðlilegum rekstrarforsendum.


Fyrning og uppboð á kvótum

Sátt um núverandi kerfi er ímyndun. Útgerðarmenn tala um nauðsyn þess að skapa stöðugleika í sjávarútvegi. Ein forsenda þess er afnám gjafakvóta. Atvinnugrein með rekstrarforsendur í andstöðu við meirihluta þjóðarinnar getur aldrei vænst stöðugleika í rekstri.

Fréttir berast af því að ungt fólk sé áhugalaust um að hefja störf í sjávarútvegi. Það er skiljanlegt, ungt fólk ekki síður en aðrir áttar sig á því að greinin byggir ekki á eðlilegum rekstrarforsendum og finnur sér annan starfsvettvang.

Staða ríkissjóðs er mjög erfið núna. Til skoðunar hlýtur að koma að útfæra fyrningarleiðina á skemmri tíma en 20 árum til að afla meiri tekna. Ég skora á ríkisstjórnina að láta ekki hræða sig frá því að framfylgja boðaðri stefnu í sjávarútvegsmálum.

Lýst hefur verið uppboðskerfi fyrir fyrnda kvóta sem er sanngjarnt, eykur hagkvæmni, tekur út hvata til brottkasts, fyrirbyggir byggðaröskun, auðveldar nýliðun og skilar ríkinu auðlindarentu af fiskimiðunum í samræmi við greiðslugetu útgerðar. Sjá grein undirritaðs í Morgunblaðinu 28. maí síðastliðinn og nánar á vefsíðunni www.uppbod.net.

Höfundur er verkfræðingur og tölvunarfræðingur. Á yngri árum tók hann þátt í útgerð og stundaði sjómennsku á minni bátum. 

(grein þessi birtist í Morgunblaðinu 21. júní 2009)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Að sumu leiti get ég verið alveg sammála þér, eins og t.d fyrningaleiðin "geti" verið góð EF henni er rétt beitt.  Miðað við þær áætlanir sem eru uppi í dag, tel ég að fyrningaleiðinni VERÐI ekki rétt beitt.  Ég bloggaði um sjávarútvegsmál fyrir nokkru og meðal annars fjallaði ég þar um fyrningarleiðina SJÁ HÉR.  Ég vil ítreka það að þarna er aðeins um mínar skoðanir að ræða.

Jóhann Elíasson, 22.6.2009 kl. 20:30

2 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Ég get tekið undir með þér að fyrningin ætti að taka skemmri tíma en 20 ár. Eins líka eins og fyrningarleiðin hefur verið kynnt, vantar í hana útlistun á því sem á að taka við. Það var það sem ég var að reyna að bæta úr með þessari tillögu að kvótauppboðskerfi.

Samt er ég þó áhugasamari um það sem tekur við eftir fyrninguna sem verðuir vonandi sanngjarnt og hagkvæmt kerfi.

Ég er sammála þér í því að sóknarstýring geti verið jafngóður eða jafnvel betri kostur til að stýra sókn en aflamark.  Hún þó nokkuð flóknari í framkvæmd en aflamarksstýring. Þar fyrir utan þarf eftir sem áður að ákveða hverjir mega veiða og hverjir ekki.

Beita mætti prósentuuppboðum á sóknarstýringarkerfi alveg eins og í aflamarkskerfi til að velja þá sem mega veiða.

Kvótauppboð með prósentugreiðslu af lönduðum afla tekur þó á helsta ókosti aflamarksstýringar sem er brottkastið.

Mér finnst samt almennt að umræða um veiðiráðgjöf Hafró, sóknarstýring eða aflamarksstýring sé annað mál en að það sem ég fjalla um í kvótauppboðstillögunni. Þar er einungis verið að taka á því að velja á þá sem hagkvæmast er að láta veiða og hvernig þeir greiða fyrir afnot af auðlindinni.

Finnur Hrafn Jónsson, 23.6.2009 kl. 01:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband