Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Er hnatthlýnunin gabb? - fræðslumynd í RÚV 19 júní kl. 20:55

Mig langar að vekja athygli á áhugaverðri fræðslumynd í ríkissjónvarpinu sem verður sýnd annað kvöld. Enskt heiti hennar er "The Great Global Warming Swindle". Netútgáfan af þessari mynd hefur vakið þó nokkra athygli og umræður.

Í myndinni koma fram ýmsir vísindamenn sem vefengja að hnatthlýnun sé að mestu leyti af mannavöldum.

Myndin verður líka endursýnd á sunnudaginn 24. júní ásamt fræðslumyndum eftir David Attenborough sem taka fyrir hina hliðina.


Áhrifamaður bætist í sístækkandi hóp efasemdarmanna

Það er gott að sjá enn einn vísindamanninn lýsa yfir efasemdum um skelfileg áhrif manngerðar hlýnunar.

Þrátt fyrir að æðstiprestur dómsdagsspámannanna James Hansen vinni líka hjá NASA hefur NASA einnig birt rannsóknaniðurstöður sem veikja trú manna á dómsdagsmódel Hansens o.fl. Sérstaklega á ég við gervihnattamælingar NASA á lítilli hlýnun í neðsta hluta lofthjúps jarðar sem passa illa inn í módel sem spá hlýnun.

Mér fannst það góður punktur hjá Griffin að leyfa sér að efast um að við gætum ákveðið að meðalhiti jarðar fyrir 50 árum væri ákjósanlegur og að við ættum að reyna að viðhalda honum með öllum tiltækum ráðum.

Einnig finnst mér að hann hafi betri skilning en ýmsir á því að vísindamenn eigi að rannsaka og birta niðurstöður. Starf þeirra sé hins vegar ekki að taka pólitískar ákvarðanir um hvernig eigi að bregðast við niðurstöðunum.

 


mbl.is Yfirmaður NASA ekki viss um að bregðast þurfi við loftslagsbreytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri vatnsorka og kjarnorka, minni jarðefnabrennsla

Í nánari fréttum af IPCC skýrslunni sbr. Morgunblaðið í dag er hvatt til aukinnar nýtingar vatnsorku og kjarnorku en dregið verði úr nýtingu jarðefnaeldsneytis.

Ég bíð bara eftir því að sjá íslenska umhverfisverndarsinna styðja aukna nýtingu vatnsorku.

Einnig verður fróðlegt að sjá hvort vestrænir umhverfisverndarsinnar taki ekki upp stuðning við aukna nýtingu kjarnorku.

Loks verður verður áhugavert að sjá hvort Kínverjar eru tilbúnir að draga úr rafmagnsframleiðslu með kolaorkuverum. Þeir taka í notkun eitt slíkt núna í hverri viku.


mbl.is Ban Ki-moon hvetur til stefnumótunar í loftslagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beint lýðræði - fylgir hugur máli?

Er það lýðræðisást sem veldur vaxandi stuðningi við beint lýðræði eða hvað?

Síðustu daga hafa margir látið í ljós ánægju með íbúakosningar og beinar kosningar kjósenda um hin ýmsu mál.  Morgunblaðið hælir sér af því að hafa stutt beint lýðræði undanfarin tíu ár.

Þó aðdragandi kosningar í Hafnarfirði hafi verið undarlegur og niðurstaðan ekki beint skynsamleg að mínu mati, er ekki þar með sagt að íbúakosningar eða þjóðaratkvæða­greiðslur geti ekki leitt til góðrar niðurstöðu.

Hér verður reynt að setja fram nokkur atriði sem þarf að að taka á við framkvæmd beins lýðræðis. Einnig verður varpað fram nokkrum tillögum um mál sem mætti afgreiða með beinu lýðræði.

Framkvæmd beins lýðræðis

  • Hvernig er ákveðið hvaða mál fara í atkvæðagreiðslu?
    Ákveðið af ákvarðanafælnum pólitíkusum eins og í Hafnarfirði eða að lágmarksfjöldi kjósenda fari fram á það.

  • Hvernig er ákveðið hvort mál fari í íbúakosningu eða þjóðaratkvæði?
    Ekkert augljóst svar hér sbr. stækkun álvers.

  • Þarf að setja skilyrði um lágmarks þátttöku?
    Trúlega óþarfi ef lágmarksfjölda kjósenda þarf til að fara fram á atkvæðagreiðslu.

  • Er málið lögfræðilega tækt til atkvæðagreiðslu?
    Þyrfti líklega að skoðast af lögfræðingum.

  • Hvort skynsamlegt sé að afgreiða fleiri en eitt mál í sömu atkvæðagreiðslu til hagræðingar
    Praktískt úrlausnarefni sem ætti að vera á færi stjórnvalda.

  • Hvað með sannfæringu þingmanna?
    Lögum samkvæmt eiga þeir að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni. Þarf þá að gera undantekningu sem segir "nema beint lýðræði mæli fyrir um annað"?

  • Hvað þarf niðurstaða að vera afgerandi til að vera bindandi?
    Er nóg að muni einu atkvæði á móti eða með eða þarf að muna 10% til að niðurstaða sé bindandi?

  • Hvernig eru stjórnvöld bundin af niðurstöðum atkvæðagreiðslna?
    Ef niðurstaðan er óframkvæmanleg, t.d. engir peningar til að framkvæma það sem samþykkt var. Eða ef framkvæmd niðurstöðu hefur ófyrirséðar afleiðingar.

  • Hversu lengi eiga niðurstöður beinna kosninga um ákveðin málefni að gilda?
    Fjögur ár?  - Viljum við vera bundin af ákvörðunum kjósenda úr fjarlægri fortíð?

Æskilegast væri ef sátt næðist um þessar leikreglur án þess að sérstakt mál væri á döfinni sem kjósa ætti um. Kannski mætti leita til Svisslendinga um hugmyndir að útfærslum.

Tillögur að málum sem setja mætti í atkvæðagreiðslu

  • Stórframkvæmdir ýmiss konar, virkjanir, verksmiðjur o.fl.
    Þetta eru hefðbundin álitamál þar sem beint lýðræði ætti að geta hentað vel.

  • Bygging umferðarmannvirkja, jarðgöng o.fl.
    Vel akandi stjórnmálamenn eru sífellt að segja okkur kjósendum að hætta að nota alla þessa bíla. Kjósendur greiða hins vegar atkvæði með buddunni og kaupa sífellt fleiri bíla. Margir þeirra væru sjálfsagt tilbúnir að sjá greiðfærari og hættuminni umferðarmannvirki heldur en stjórnmálamenn vilja láta þá hafa.

  • Búfjárbeit á uppblásnu hálendi
    Þetta er mál sem háværir umhverfissinnar eru áhugalausir um. Almenningur gæti haft aðra skoðun.

  • Refsingar við brotum
    Beint lýðræði myndi líklega leiða til strangari refsinga ef marka má fjölmiðlaumræðu.

  • Fjárstyrkir ríkisins til stjórnmálaflokka
    Augljóst er hverjir myndu ekki vilja sjá þetta mál afgreitt með beinu lýðræði.

  • Styrkir til listamanna, sérstakur skattafsláttur til sjómanna
    Ljóst er að beint lýðræði leiðir til minna dekurs við háværa sérhagsmunahópa.

  • Ríkisrekstur á útvarpsstöðvum, hljómsveitum og leikhúsum
    Þarna eru álitamál sem beint lýðræði gæti tekið á.

  • Húsnæðismál aldraðra
    Mín tilfinning er að beint lýðræði myndi verða til bóta fyrir þennan málaflokk.

  • Innflutningstollar á landbúnaðarvörum
    Hér kæmi í ljós raunverulegur vilji kjósenda til að sætta sig við hærra matvælaverð til að halda uppi óarðbærri íslenskri landbúnaðarframleiðslu.

  • Val embættismanna, t.d. lögreglustjóra, dómara, sendiherra o.fl.
    Þá gætu kjósendur valið lögreglustjóra sem segist ætla taka hart á fíkniefnasölum ef þeim sýnist svo.

  • Uppboð (fyrningaleið) á veiðiheimildum
    Einmitt þetta mál finnst mér vera ein besta röksemdin fyrir beinu lýðræði. Fátt hefur verið um valkosti í þessu máli fyrir kjósendur sem ekki eru vinstri sinnaðir.

  • Hámark útsvarsprósentu, skattprósentu, skattfrelsismörk og skattar á bíla
    Þetta eru mál sem flestir stjórnmálamenn myndu líklegast vera sammála um um að ættu ekki að afgreiðast með beinu lýðræði. Kjósendur gætu verið annarrar skoðunar.

  • Eftirlaun alþingismanna
    Ýmsir alþingismenn hafa lýst ánægju með beint lýðræði. Gaman verður að heyra þegar þeir reyna að útskýra fyrir okkur að einmitt þetta mál eigi ekki að afgreiðast þannig.

Eru til einhver álitamál sem fylgjendur beins lýðræðis telja að eigi ekki að greiða atkvæði um? Ef svo er, væri gott að fá að vita hver þau eru.

Getur verið að ánægja sumra aðila með íbúakosningar mótist af því að líkleg niðurstaða sé að þeirra skapi? Fleiri möguleikar skapist til að koma í veg fyrir eitthvað sem þeir eru á móti.

Mér finnst að ef taka á upp beint lýðræði verði að taka allan pakkann. Ekki bara atkvæðagreiðslur um mál sem stjórnmálamönnum finnst óþægileg eða mál sem þeir telja óhætt að láta almenning greiða atkvæði um. Beint lýðræði þar sem stjórnmálamenn ákveða hvaða mál fara í atkvæðagreiðslu finnst mér bara vera nafnið tómt.

Kannski er bara skást að notast við þetta fulltrúalýðræði sem við höfum notað svo lengi.  Upplýsingasamfélagið veitir okkur aðgang að öllum upplýsingum sem við þurfum á að halda til að taka afstöðu. Vandamálið er hins vegar að álitamálin eru mörg og sum það flókin að vinnandi fólk hefur einfaldlega ekki tíma til að setja sig inn í þau öll til að geta tekið ígrundaða afstöðu. Stjórnmálamenn hafa það þó fyrir atvinnu að setja sig inn í málin og sumum þeirra tekst það meira að segja nokkuð vel.

Þegar ég heyri stjórnmálamann lýsa því yfir að fjárstyrkir til stjórnmálaflokka verði ákveðnir með beinu lýðræði trúi ég því að lýðræðisást búi að baki, fyrr ekki.


Loftslagsskýrsla SÞ lituð af pólitík?

Í samantekt Fréttablaðsins í dag 5. feb. kom fram að deilur hefðu verið milli nefndarfulltrúa IPCC nefndar Sameinuðu þjóðanna sem var að gefa út samantekt um rannsóknir um loftslagsmál. Fram kom að Kínverjar hefðu ekki verið sáttir við harðort orðalag um hlýnun af mannavöldum og að þeir hefðu fengið í gegn breytingar.

Ef um raunverulegar og ótvíræðar vísindaniðurstöður er að ræða þarf ekki fundahöld og samningaviðræður um hvernig á að birta útdrátt úr þeim.

Þetta styður við gagnrýni sem IPCC nefndin hefur fengið fyrir að láta pólitík hafa áhrif á rannsóknir og birtingu niðurstaða þeirra. 


Íslenskur áliðnaður í Stern skýrslunni - rétttrúnaður

Mér þótti áhugaverð ábending Jakobs Björnssonar fyrrverandi orkumálastjóra um íslenskan áliðnað í Stern skýrslunni sem birtist sunnudaginn 7. janúar í Morgunblaðinu.

Ekki er að sjá annað en skýrsluhöfundar séu ánægðir með að álframleiðsla fari vaxandi á Íslandi. Sérstaklega eru þeir ánægðir með mengunarlausar og endurnýjanlegar orkulindir á Íslandi sem eru í vaxandi mæli nýttar í stað mengandi orkulinda í öðrum löndum.

Miðað við hvað þessi skýrsla fékk mikla umfjöllun í fjölmiðlum á Íslandi verður að teljast merkilegt að ekki var minnst á þennan kafla í skýrslunni, að minnsta kosti ekki í þeim fréttum sem ég sá. Getur verið að íslenskir fjölmiðlamenn hafi einfaldlega ekki lesið skýrsluna sem þeir voru að skrifa um?

Eða það sem verra er, þeir hafi lesið hana en ákveðið að minnast ekkert á þennan kafla þar sem innihaldið passaði illa inn í pólitískan rétttrúnað sem núna viðgengst á Íslandi?

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband