27.10.2011 | 00:16
Krónan margfaldaði tjón almennings af bankahruninu.
Maðurinn hefur greinilega ekki sjálfur upplifað kjaraskerðingu og lánahækkanir af völdum krónunnar.
Ef Íslendingar hefðu haft evru eða dollar í stað krónunnar þegar bankarnir hrundu:
- Hefðu líkast til verið starfandi útibú erlendra banka á Íslandi sem hefðu haldið áfram starfsemi eins og ekkert hefði í skorist þegar íslensku bankarnir hrundu.
- Hefði ekki skollið á gjaldeyriskreppa sem stórskaðaði utanríkisviðskipti Íslendinga.
- Hefði þjóðarframleiðsla Íslendinga ekki minnkað um ca. 40% á fyrsta árinu eftir hrunið mælt í alþjóðlegum myntum. Líkast til frekar um 10% sem var hlutur bankanna í þjóðarframleiðslunni fyrir hrun.
- Hefði verðlag ekki hækkað um 40%.
- Hefðu gengistryggð og verðtryggð lán einstaklinga og fyrirtækja ekki hækkað um 30-100%.
- Hefðu Íslendingar ekki þurft að leggjast á hnén til að biðja AGS og nágrannaríki um gjaldeyrislán.
- Væru Íslendingar ekki að borga miljarðatugi ef ekki meira árlega í vexti af lánum til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn.
- Hefði fjöldi fyrirtækja ekki orðið tæknilega og mörg raunverulega gjaldþrota vegna gengishrunsins.
- Mun færri hefðu misst vinnuna vegna þess að mun færri fyrirtæki hefðu orðið gjaldþrota.
Bankahrunið var mikið áfall fyrir efnahagslíf Íslendinga. Gjaldeyriskreppan sem fylgdi í kjölfarið og afleiðingar hennar ollu margfalt stærra áfalli, sérstaklega fyrir almenning.
Þess vegna er með ólíkindum að einhverjir skuli nú koma fram og lofa kosti krónunar við að takast á við áfallið sem var að miklu leyti tilkomið einmitt vegna krónunnar.
Wolf segir krónuna reynast vel | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:34 | Facebook
Athugasemdir
Skil ég þetta rétt: Af því að líkast til hefðu erlendir bankar rekið hér útibú stæðum við miklu betur en Írar og margfalt betur en Grikkir?
Bæði þessi lönd eru með evru, bæði á hausnum og bæði þurftu "að leggjast á hnén" hjá AGS.
Nú er Evruland á þeytingi með betlibaukinn um allan heim. Brasilía og Kína beðin um lán, Rússland og Indland kannski líka og nú síðast stungið upp á að biðja Norðmenn.
Hér væri auðvitað engin gjaldeyriskreppa, en í staðinn hefðum við lausafjárkreppu eins og Portúgal og miklu meira atvinnuleysi.
Þetta er ekki svona svart/hvítt.
Haraldur Hansson, 27.10.2011 kl. 01:20
Þar sem flestir alþjóðlegir bankar stóðu af sér kreppuna 2008 eru góðar líkur á því að við hefðum haft útibú frá bönkum sem hefðu ekki hrunið.
Írar álpuðust til að baktryggja bankana, það hefur nákvæmlega ekkert með evruna að gera. Það var gert í litlum mæli hér á landi.
Grikkir voru með botnlausan halla á ríkisrekstri og skuldasöfnun, það hefur nákvæmlega ekkert með evruna að gera.
Írsku bankarnir og bankarnir sem lánuðu Grikkjum voru með lélega áhættustýringu. Það hefur nákvæmlega ekkert með evruna að gera nema að evran er líklegri til að standa af sér áfallið vegna stærðar sinnar heldur en ef ríkin hefðu verið hvert með sinn gjaldmiðil.
Finnur Hrafn Jónsson, 27.10.2011 kl. 01:28
"Krónan margfaldaði tjón almennings af bankahruninu."
Bull og þvæla - það var og er verðtryggingin sem er að gera út af við almenning og mörg fyrirtæki.
Gulli (IP-tala skráð) 27.10.2011 kl. 08:35
Góður pistill... sammála þessu Finnur.
Sleggjan og Hvellurinn, 27.10.2011 kl. 08:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.