21.4.2010 | 11:33
30% af heimildum IPCC ekki rýndar
Fyrir þá sem ekki vita er IPCC alþjóðanefnd Sameinuðu þjóðanna fremst í flokki þeirra sem halda því fram að hlýnun jarðar undanfarið stafi af mannavöldum.
IPCC stundar engar rannsóknir sem slík en kannar rannsóknaniðurstöður frá vísindamönnum og leggur mat á þær.
Eitt af því sem notað hefur verið til að rökstyðja það að við ættum að trúa IPCC er að IPCC byggi niðurstöður sínar einungis á jafningjarýndum (peer reviewed) heimildum.
Formaður nefndarinnar Pachauri hefur ítrekað þetta við mörg tækifæri, sjá t.d. eftirfarandi tilvitnun:
"People can have confidence in the IPCC's conclusions Given that it is all on the basis of peer-reviewed literature." - Rajendra Pachauri, IPCC chairman, June 2008
Mörg önnur dæmi um þessa fullyrðingu með tilvísunum má sjá á þessari síðu:
http://www.noconsensus.org/ipcc-audit/not-as-advertised.php
Sjálfur man ég ekki betur en Pachauri hafi ítrekað þetta í fyrirlestri í Háskólabíói á síðasta hausti.
Síðan þá hefur ýmislegt gerst. Climategate staðfesti meðal annars það sem marga hafði grunað lengi að jafningjarýnisferlið í loftslagsvísindum væri ekki að virka sem skyldi. Ýmsir tölvupóstar staðfestu það. Síðan kom Himalayagate og fleiri tengd mál þar sem staðfest var að minnsta kosti einhverjar heimildir voru byggðar á blaðafréttum eða álíka vísindalegum grunni. IPCC viðurkenndi mistökin, sagði að það yrðu áfram jöklar í Himalaya eftir nokkra áratugi og sagði að það hefði verið einstak óhapp að þetta hefði ekki uppgötvast áður en skýrslan var gefin út.
Síðan gerðist það nýlega að alþjóðlegur hópur 43 borgara frá 12 löndum kannaði allar 18.531 heimildirnar. Þetta hlýtur að hafa verið býsna mikil vinna og á þessi hópur þakkir skilið fyrir vinnuframlagið.
Verkefninu var stjórnað af Donna Laframboise, kanadískri konu sem heldur úti síðunni www.noconsensus.org
Niðurstöðuna úr rannsókninni má finna hér: http://www.noconsensus.org/ipcc-audit/findings-main-page.php
Hver kafli í heimildalistanum var rýndur af þremur óháðum rýnendum og linkað er á niðurstöður hvers þeirra. Alltaf var valin sú niðurstaða sem var hagstæðust IPCC.
Niðurstaðan var að af 18.531 tilvísuðum heimildum voru 5.587 ekki jafningjarýndar. Niðurstaðan er sem sé að meira en 30% af heimildum IPCC voru ekki ritrýndar!
Þessi 30 prósent samanstanda m.a. af stúdentaritgerðum, blaðagreinum og jafnvel áróðursbæklingum frá umhverfisverndunarsinnum.
Í fyrstu var ég vantrúaður á að þetta gæti verið rétt, svo að ég kíkti á nokkrar heimildir í IPCC skýrslunni af handahófi. Og mikið rétt. Þarna mátti finna tilvísanir í útgáfur af ýmsu tagi m.a. frá Cato stofnun hægri sinnaðra Bandaríkjamanna, Vinnuskjöl "Working papers" sem eru það væntanlega vegna þess að ekki er búið að rýna þau, fréttatilkynningar af ýmsu tagi og skjöl frá WWF (World Wildlife Fund) sem er þekkt alþjóðleg stofnun sem berst fyrir hagsmunum dýrategunda.
Sjá má umfjöllun um þetta í Daily Telegraph hérna: http://www.telegraph.co.uk/comment/columnists/christopherbooker/7601929/Climategate-a-scandal-that-wont-go-away.html
Þó virðing mín fyrir IPCC hafi farið minnkandi með hverju ári undanfarið, verð ég að viðurkenna að ég er alveg dolfallinn. Nefndin er svo gjörsamlega rúin trúverðugleika að það er ekkert annað að gera en leggja nefndina niður og reyna að nálgast málin með öðrum hætti.
Ég held að það sé kominn tími fyrir dugnaðarforkana á www.loftslag.is að bæta einni mýtu á listann sinn.