13.10.2015 | 21:26
Er Keflavík rétti staðurinn?
Það hefur verið gefið út að hluti núverandi mannvirkja á Keflavíkurflugvelli sé úreltur og þurfi að fjarlægja. Síðan er talað um hundraða miljarða fjárfestingu.
Samkvæmt skýrslu staðarvalsnefndar er Hvassahraun mun hentugri staðsetning fyrir millilandaflugvöll. Gæti einnig nýst fyrir innanlandsflugvöll. Á virkilega ekki að skoða þetta?
70-90 milljarðar í fyrsta hluta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Alrangt.
Það er búið að rannsaka flugvallarst´'i í 50-60 ár og Hvassahraun hefur ekki góð skilyrði nema síður sé. Reykjavík ber af þar sem núveraandi flugvöllur er. Ekki láta Daginn í Reykjavík blekkja þig. Flugvöllurinn í Sandgerði er með margfalt betri skilyrði en Hvassahraun.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 14.10.2015 kl. 03:04
Það er ekki merkilegur verkfræðingur, sem í alvöru, heldur að það sé hægt að byggja flugvöll á hrauni. Veistu ekki hvernig hraun er?????
Jóhann Elíasson, 14.10.2015 kl. 09:41
Þó Dagur hafi verið í stýrihópi Rögnunefndar, framkvæmdi hann sem betur fer ekki þær rannsóknir sem skýrslan byggir á.
Meðal helstu rannsóknaaðila voru verkfræðistofan Mannvit, Veðurstofan, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og erlend ráðgjafafyrirtæki um flugvallagerð. Allt aðilar sem verða að teljast ágætlega hæfir í þessa vinnu.
Samkvæmt þessum aðilum er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af veðurfari eða staðsetningu í hrauninu.
Hagræðið sem fylgir því að stytta akstursvegalengdina til Reykjavíkur úr 45 í 20 mínútur ætti að vera hverjum manni augljóst. Við erum að tala um miljónir farþega á hverju ári.
Fyrir þá sem vilja koma með málefnalegar athugasemdir í stað sleggjudóma mæli ég með því að lesa skýrsluna. Mér fannst hún vera ágætlega unnin: http://www.visir.is/assets/pdf/XZ1885625.PDF
Finnur Hrafn Jónsson, 14.10.2015 kl. 12:45
Finnur.
Alrangt hjá þér.
Fyrir liggja skýrslur um flugvallaleitarmál í áratugi aftur í tímann. Þau sýna svo óyggjandi sé að Hvassahraun er afar afleitur kostur fyrir flugvöll vegna allra skilyrða þar.
Ljóst er að skýrslur sem Rögnunefndin fékk eru ekki mjög ábyggilegar í þessu efni og póllinn tekinn af meðvirkni allnokkurri.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 14.10.2015 kl. 13:23
Góð reifun um flugvallarflæumruganginn er í neðangreindri ritstjórnargrein Morgunblaðsins :
„2. október 2015 | Ritstjórnargreinar | 559 orð
Hið undarlegasta mál
Þetta eru ótrúleg vinnubrögð og það sem er ekki síst aðfinnsluvert er að borgaryfirvöld hafa á stundum fengið aðstoð ríkisvaldsins við þessar atlögur sínar að vellinum. Einn liður í því var að stofna nefnd sem átti að leita að nýju flugvallarstæði, jafn fjarstæðukennd og sú leit var frá upphafi, enda tilgangurinn með því nefndarstarfi aðeins sá að koma flugvellinum úr Vatnsmýrinni.
Niðurstaða nefndarstarfsins var í samræmi við tilganginn og augljóst að sá kostnaður sem lagður var í að leita að flugvelli er tapað fé sem mun aldrei nýtast til nokkurs hlutar. Flugvöllurinn er ekki á leið í Hvassahraun eða nokkurn annan stað sem slík nefnd kann að „finna“ eftir umfangsmikla og kostnaðarsama „leit“.
Mikilvægt er að borgaryfirvöld og aðrir þeir sem hafa þráast við í þessu máli sætti sig við að vilji landsmanna, þar með talið borgarbúa, stendur til þess að hafa Reykjavíkurflugvöll á sínum stað, að viðhalda innanlandsflugi og traustu sjúkraflugi.
Í þessu sambandi er þýðingarmikið að nú hefur Ólöf Nordal innanríkisráðherra tekið af skarið og talað skýrt um viðleitni borgarinnar til að þrengja að flugvellinum sem sé andstæð áformum ríkisins um að reka áfram flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Á fundi í fyrradag sagði innanríkisráðherra: „Það liggur fyrir að borgarstjórinn í Reykjavík er annarrar skoðunar en ég og borgarstjórnarmeirihlutinn vill ekki hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Þá stendur málið einfaldlega þannig, að borgarstjórnarmeirihlutinn vill ekki hafa flugvöll þar, en ríkisvaldið rekur flugvöll í Vatnsmýrinni. Á meðan ríkisvaldið rekur flugvöll fyrir innanlandsflug, sem ekki er á stefnuskrá að leggja niður, þá þarf til þess flugvöll til þess að lenda flugvélum á. Og það er ekki um neinn annan flugvöll að ræða en Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni. Ég sé það ekki fyrir mér að það sé að rísa flugvöllur í Hvassahrauni á næsta ári, og ekki sé ég það fyrir mér að innanlandsflugið verði flutt til Keflavíkur.“
Hún bætti við: „Mér finnst allt þetta mál hið undarlegasta og hafi verið það lengi“, og skyldi engan undra.
Ólöf ræddi einnig um neyðarbrautina og sagðist telja að ef fórna ætti henni væru menn komnir á flótta með innanlandsflugvöll í Reykjavík og ef hún færi mætti spyrja hvort næsta braut yrði þá ekki í hættu og loks sú þriðja. Og hún var með skýr skilaboð til borgaryfirvalda um framhaldið: „Varðandi lokun neyðarbrautarinnar vil ég taka fram, að það er innanríkisráðherra, sem þarf að taka ákvörðun um slíka lokun. Sú ákvörðun hefur ekki verið tekin. Á meðan ráðherra hefur ekki tekið slíka ákvörðun, þá er flugvöllurinn áfram þar sem hann er.“
Niðurstaða þeirrar undarlegu nefndar sem skipuð var til að leita að flugvallarstæði í Reykjavík er ekki að neinu hafandi, þó ekki væri nema af þeirri ástæðu einni að í henni sat borgarstjórinn í Reykjavík sem lítur á það sem forgangsverkefni að bola flugvellinum úr Vatnsmýrinni.
Fyrir liggur, ekki síst eftir ummæli innanríkisráðherra um flugvöllinn og aðförina að honum, að ríkisvaldið hefur ekki í hyggju að láta undan þrýstingi þeirra minnihlutasjónarmiða að loka flugvellinum. Mikilvægt er að þessi stefna sé skýr, að eftir henni sé unnið og að þjónusta við flugvallarstarfsemina fái hér eftir að byggjast upp með eðlilegum hætti í Reykjavík.“
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 14.10.2015 kl. 13:26
Þá hefur farið framhjá þér góð samantekt Agnesar Bragadóttur :
„26. júní 2015 | Innlendar fréttir | 918 orð | 5 myndir
Nefndin valdi Hvassahraun
• Rögnunefndin telur að allir flugvallarkostirnir geti rúmað þá starfsemi sem er í Vatnsmýri • Hólmsheiði sögð lakasti kosturinn vegna veðurfars, nálægðar við fjöll og hæðar yfir sjávarmáli
Agnes Bragadóttir
agnes@mbl.is
Rögnunefndin svokallaða, stýrihópur ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair, skilaði skýrslu sinni um valkosti hvað varðar nýjan innanlandsflugvöll á höfuðborgarsvæðinu í gær. Telur nefndin Hvassahraun vera besta kostinn, en það svæði liggur á mörkum Hafnarfjarðar og Voga á Vatnsleysuströnd.
Í samkomulagi, sem gert var í október 2013 og starf stýrihópsins byggðist á, segir að aðilar séu sammála um að fullkanna aðra kosti til rekstrar innanlandsflugs en framtíðarflugvöll í Vatnsmýri. Þeir séu einnig sammála um að staðsetning nýs flugvallar á höfuðborgarsvæðinu sé fyrsti kostur.
Flugvallarkostirnir, sem voru til skoðunar, eru Bessastaðanes, Hólmsheiði, Hvassahraun, Löngusker og breyttar útfærslur flugvallar í Vatnsmýri.
Stýrihópurinn segir m.a. í skýrslu sinni um Hvassahraun: „Í Hvassahrauni er landrými gott og eru þróunarmöguleikar þar heilt á litið betri en á öðrum flugvallarstæðum.
Áætlaður stofnkostnaður flugvallar og bygginga sem tækju við allri starfsemi Reykjavíkurflugvallar er um 22 milljarðar króna.“ Þar kemur einnig fram að metinn nothæfisstuðull sé 96,4-97,2% fyrir tvær flugbrautir en 99,6% fyrir þrjár.
Tími sjúkraflutninga lengist
Fram kemur að búast megi við því að verði Hvassahraun fyrir valinu muni tími sjúkraflutninga á Landspítala með sjúkraflugi lengjast um 8,5-12,5 mínútur vegna lengri flug- og aksturstíma.
Í umsögn hópsins segir að allir kostirnir, sem voru skoðaðir, gætu rúmað þá starfsemi sem nú er í Vatnsmýri. Hólmsheiði hafi komið lakast út en Hvassahraun komi vel út í samanburði við aðra flugvallarkosti þegar litið sé til þátta eins og veðurfars, rýmis og hindrana, kostnaðar og umhverfismála. Auk þess komi Hvassahraun best út þegar horft sé til möguleika flugvallarstæða til að taka við flugumferð eða starfsemi umfram það sem nú sé í Vatnsmýri.
„Hvassahraun er því að mati stýrihópsins sá flugvallarkostur sem hefur mesta þróunarmöguleika til framtíðar, borið saman við aðra flugvallarkosti. Þó eru ýmis atriði sem skoða þarf betur, þar á meðal
mögulegar mótvægisaðgerðir vegna sjúkraflutninga,“ segir orðrétt í umsögninni.
Rekstraröryggi verði tryggt
Í tillögum hópsins segir m.a.: „Stýrihópurinn leggur til að aðilar samkomulagsins komi sér saman um næstu skref í málinu á grundvelli þeirra gagna sem hann hefur aflað.
Flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullkönnuð með nauðsynlegum rannsóknum næsta vetur auk þess sem rekstrarskilyrði mismunandi útfærslu og hönnunar verði metin. Náist samstaða um það leggur stýrihópurinn til að stofnað verði sameiginlegt undirbúningsfélag í þessu skyni.
Samhliða telur stýrihópurinn nauðsynlegt að náð verði samkomulagi um að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri verði tryggt á meðan nauðsynlegur undirbúningur og eftir atvikum framkvæmdir fara fram. Að sama skapi þarf að eyða óvissu um framtíð æfinga-, kennslu- og einkaflugs.“
Kostar 19-32 milljarða
Í umsögn um Reykjavíkurflugvöll kemur fram að nefndin skoðaði fjórar breyttar útfærslur af legu flugbrauta í Vatnsmýri með sömu rýmis- og kostnaðarforsendum og á nýjum flugvallarstæðum.
Áætlaður stofnkostnaður við nýjar flugbrautir, athafnasvæði og byggingar er sagður vera á bilinu 19-32 milljarðar króna.
Metinn nothæfisstuðull er sagður 96,8-97,8% fyrir tvær flugbrautir í breyttum útfærslum en 99,7% fyrir þrjár flugbrautir.
Umhverfisþættir til umfjöllunar yrðu einkum að því er varðar lífríki á svæði sem nýtur hverfisverndar, svo og hljóðvist. Stýrihópurinn segir þróunarmöguleika takmarkaða vegna nálægðar við byggð og aðdýpis.
Flugvöllurinn í friði
• Talsmaður Hjartans í Vatnsmýri vill að ekki verði hróflað við flugvellinum þar til annar völlur verði byggður Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Hjartað í Vatnsmýri er ánægt með niðurstöðu stýrihóps um málefni Reykjavíkurflugvallar, að sögn Friðriks Pálssonar, annars af tveimur formönnum samtakanna.
Hjartað í Vatnsmýri er grasrótarsamtök sem voru stofnuð 8. júlí 2013 í þeim tilgangi að tryggja landsmönnum öllum óskertar flugsamgöngur í Vatnsmýri. „Við urðum til sem grasrótarsamtök þegar fyrir lá að Reykjavíkurborg ætlaði að loka flugvellinum í reynd á árinu 2016. Við fórum í undirskriftasöfnun sem skilaði tæplega 70 þúsund undirskriftum. Þá varð öllum ljóst að ekki væri hægt að halda svona áfram og samkomulag náðist um Rögnunefndina,“ segir Friðrik.
69.804 einstaklingar skrifuðu undir eftirfarandi yfirlýsingu: „Við leggjumst gegn þeim áformum að flugvallarstarfsemi víki úr Vatnsmýrinni og skorum á Reykjavíkurborg og Alþingi að tryggja öllum landsmönnum óskerta flugstarfsemi í Vatnsmýri til framtíðar.“
Friðrik vekur sérstaka athygli á þeirri tillögu nefndarinnar að leitað verði samkomulags um að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri verði tryggt á meðan nauðsynlegur undirbúningur að öðrum flugvelli og eftir atvikum framkvæmdir fari fram. Friðrik segir að Hjartað í Vatnsmýri hafi krafist þess að Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri yrði í óbreyttri mynd, þar til annar flötur yrði kominn á innanlandsflugið. „Ég skil það [niðurstöður nefndarinnar] þannig að það sé í höndum ráðherra og borgarinnar að tryggja að svo verði, völlurinn fái að vera þar í friði þar til önnur lausn verði fundin og byggð,“ segir Friðrik.
Næstu skref metin
Ólöf Nordal innanríkisráðherra hafði ekki tök á að tjá sig um niðurstöðu nefndarinnar í gær. Eftir henni er haft í frétt á vef innanríkisráðuneytisins að á næstunni verði farið yfir skýrslu stýrihópsins og metið hvert næsta skref verði varðandi framtíð Reykjavíkurflugvallar.
Gamall draugur vakinn upp
„Það er verið að vekja upp gamlan draug,“ sagði Ómar Ragnarsson, einkaflugmaður og fyrrverandi fréttamaður, við mbl.is. Hann rifjaði upp að fyrir 55 árum hefðu verið uppi hugmyndir um flugvöll í Kapelluhrauni, skammt frá Hvassahruni. Sú hugmynd hefði verið slegin út af borðinu eftir að prófað hefði verið að fljúga vélum til skiptist að og frá Reykjavíkurflugvelli í hvassri aust-suðaustanátt, sem væri algengasta vindáttin á höfuðborgarsvæðinu, og jafnframt að og frá hugsanlegu flugvallarstæði í Kapelluhrauni. „Hefur Reykjanesfjallgarðurinn fjarlægst og lækkað síðustu 55 árin og hefur vindurinn minnkað,“ spurði Ómar.
Framsókn og flugvallarvinir segja í fréttatilkynningu miður að hlutverk Rögnunefndarinnar hafi ekki verið að leggja mat á hagkvæmni þess að halda Reykjavíkurflugvelli í núverandi mynd, heldur aðeins að athuga hvort önnur flugvallarstæði kæmu til greina fyrir rekstur innanlandsflugs. Ítrekar flokkurinn stuðning sinn við óbreyttan Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýri.“
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 14.10.2015 kl. 13:31
Svo er það með lögbrotin og fleira :
„7. júlí 2015 | Aðsent efni | 761 orð | 1 mynd
Rögnuskýrsla ótrúverðug vegna ólöglegra reikniskekkja
Eftir Jóhannes Loftsson
Flugvellir standast ekki lagakröfur
Í töflu 1 bls. 17 og víða annars staðar í Rögnuskýrslu kemur fram að útreikningar á nothæfisstuðli Hvassahraunsflugvallar miði við 13 hnúta hámarks hliðarvind, en það er gildi sem samkvæmt íslenskri reglugerð má eingöngu nota fyrir stærri flugvélar. Ekki eru birtar niðurstöður útreikninga fyrir minni vélar sem þola minni hliðarvind, þrátt fyrir að sagt sé að útreikningar á þeim hafi farið fram. Þetta er mjög undarleg framsetning í ljósi þess að nothæfisstuðull minni vélanna er sá þáttur sem er takmarkandi fyrir hönnun flugvallarins. Að ekki skuli birtur nothæfisstuðul fyrir þessar vélar bendir til þess að skýrsluhöfundar telji viðunandi að miða hönnunina við að tryggja öryggi sumra flugvéla, en ekki allra. Slíkt væri galin nálgun sem stæðist ekki lög.
Í reglugerð 464/2007 grein 3.1.3 í VI hluta er fjallað um mat á leyfilegum hliðarvindstuðli og þar segir m.a. að hann eigi að vera að hámarki: „-19 km/klst. (10 hnútar) hvað varðar flugvélar með viðmiðunarflugtaksvegalengd undir 1200 m.“ Stærsta sjúkraflugvél hjá Mýflugi, Beechcraft Kingair 200, er með viðmiðunarflugtaksvegalengd 592 m. Hér væri því um nokkuð augljóst lögbrot að ræða. Reglugerðin er aðgengileg á netinu (www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/464-2007) og getur því hver sem er, meira að segja þeir sem eru í Rögnunefnd, kynnt sér hana.
Það að ekki hafi verið tekið tillit til sjúkraflugs er síðan sérstaklega alvarlegt í ljósi mikilvægi þess. Reynt er að fljúga sjúkraflug í öllum veðrum, og þar sem líf sjúklingsins er oft í hættu er aukinn þrýstingur á sjúkraflugmenn að reyna lendingu þó að aðstæður séu erfiðar.
Fyrir utan þessa yfirsjón virðist Rögnuskýrsla einnig hafa fallið í þá gryfju að nota aðeins veðurgögn frá hlýjum mildum árum (2001-2009), auk þess sem hvergi er minnst á hvernig áhrif brautarskilyrða (ísing, snjófærð o.fl.) eru tekin inn í útreikninga en tekið fram í töflu 1 að vindhviður séu ekki teknar með í útreikningana. Þetta eru nákvæmlega sömu skekkjur og komu fram í nýlegri skýrslu Eflu og þar sem ráðleggingu ICAO var ekki fylgt. Í samanburði við Vatnsmýrina kemur einnig fram að Hvassahraun sé bæði vindasamara og vetrarfrost þar töluvert tíðara. Út frá þessu er nokkuð óhætt að fullyrða að nær engar líkur séu á að tveggja brauta völlur eins og skýrsluhöfundar leggja til að verðir byggður í Hvassahrauni geti verið löglegur.
Í framhaldi af útgáfu skýrslunnar hafa ýmsir reyndir flugmenn stigið fram og lýst yfir að það væru mistök að byggja flugvöll í Hvassahrauni. M.a. hefur verið bent á að könnun á flugvallarstæði á þessum slóðum fyrir um 55 árum hafi sýnt að of mikil ókyrrð væri í lofti til að flugvallarstæðið þætti fýsilegur kostur og árið 2001 gaf flugráð út að Hvassahraun væri langversti kosturinn sem það skoðaði. Í ljósi þessa má jafnvel efast um að rekstur þriggja brauta flugvallar geti gengið þar.
Grunnforsendur Rögnuskýrslu standast engan veginn, því að allir flugvallarkostirnir sem eru kostnaðarreiknaðir eru tveggja brauta og því líklega ólöglegir. Óráðlegt er að eyða meira opinberu fé í nokkra könnun á svæðinu fyrr en hæfir aðilar hafa verið fengnir í að reikna nothæfisstuðulinn.
Lokun neyðarbrautar Reykjavíkurflugvallar yrði lögbrot
Vegna áhrifa ýmissa hagsmunaaðila hefur undanfarið verið settur verulegur þrýstingur á að neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar verði lokað. Vandamálið er hins vegar það að nothæfisstuðullinn sem þessi aðilar bera fyrir sig byggir á útreikningum verkfræðistofunnar Eflu, sem eru með stórum reikniskekkjum og standast engan veginn íslenskar lagakröfur. Lokun brautarinnar yrði því ólögleg.
Mikilvægt er að allir þeir sem koma að þessum málum átti sig á því að þótt einhverir aðilar sjái sér hag í því að loka neyðarbrautinni hafa óskir þeirra einar sér engin áhrif á þá raunverulegu veðurþætti sem ráða flugörygginu. Með einföldum hætti má sýna fram á að hér er um klárt lögbrot að ræða enda er ljóst að líf eru að veði ef slakað verður á flugöryggi.
Höfundur er verkfræðingur og frumkvöðull.“
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 14.10.2015 kl. 13:38
„14. mars 2001 | Aðsent efni | 822 orð | 1 mynd
Flugvöllur
Kynning flugvallarkosta
Fyrir nokkrum vikum var borið í hvert hús höfuðborgarinnar 20 síðna blað frá þróunarsviði Ráðhúss Reykjavíkurborgar undir fyrirsögninni ,,Framtíðarborgin Reykjavík". Á fjórum síðum í miðju blaðsins er fjallað um flugvallarmálið, og borgarbúum þar m.a. bent á að ef þeir kjósi flugvöllinn burt úr borginni séu þrír kostir fyrir hendi, Löngusker, Hvassahraun eða Keflavík.
Lönguskerjum hafnað
Ýmsar hugmyndir hafa áður verið kynntar um gerð nýs flugvallar á sjávarfyllingum í Skerjafirði, þ.ám. á Lönguskerjum. Þótt enn séu í kynningargögnum Reykjavíkurborgar tíundaðir meintir kostir og gallar þeirra var þessi hugmynd þó í reynd formlega afgreidd út af borðinu í ,,Greinargerð um flugvallarhugmyndir á höfuðborgarsvæðinu", sem borgarverkfræðingur gerði fyrir ,,Samvinnunefnd um svæðisskipulag á höfuðborgarsvæðinu", og kynnt var á fundi borgarráðs 16. jan. sl.
Þar segir á bls. 14: ,,Ekki verða með lauslegri athugun fundin rök sem réttlæta frekari skoðun á flugvallargerð í Skerjafirði heldur verði leitað annarra lausna varðandi flutning Reykjavíkurflugvallar ef til þess kæmi. Sérstök umsögn Borgarskipulags Reykjavíkur var einnig mjög neikvæð varðandi staðsetningu flugvallar í Skerjafirði."
Til viðbótar hefur borgarstjóri nú fyrir nokkru lýst þeirri skoðun sinni, að flugvöllur úti í Skerjafirði kæmi ekki til álita með hliðsjón af ýmsum umhverfisþáttum.
Þar með hafa bæði embættismenn og ráðandi stjórnmálamenn Reykjavíkurborgar hafnað flugvelli úti í Skerjafirði. Sama sinnis eru samgönguyfirvöld og flugrekendur. Hvers vegna er þá þessi kostur enn kynntur í dreifigögnum Reykjavíkurborgar og á spjöldum og myndböndum hennar á flugvallasýningunni í Ráðhúsinu í liðinni viku?
Hvassahrauni einnig hafnað
Í sömu kynningargögnum Reykjavíkurborgar er einnig bent á ,,nýjan völl í Hvassahrauni sunnan Hafnarfjarðar" sem hugsanlegt flugvallarstæði, og þar taldir upp sjö meintir kostir hans, en aðeins þrír ókostir. Einn ókostanna er orðaður svo: ,,Frekari mælinga veðurfars á svæðinu er þörf." Af hálfu ráðgjafa borgarinnar eru þetta væntanlega dulkóðaðar upplýsingar, sem á mannamáli þýða: ,,Flugvöllur á þessum stað kemur ekki til álita fyrir innanlandsflugið"!
Þessi staðreynd hefur að sjálfsögðu legið ljós fyrir í marga áratugi, og er löngu staðfest bæði af íslenskum flugmönnum og öðrum sérfróðum aðiljum, sem að málinu hafa komið. Í ofangreindri greinargerð borgarverkfræðings, sem kynnt var borgarráði 16. jan., segir t.d. á bls. 17 um þennan kost, - sem reyndar er utan höfuðborgarsvæðisins: ,,Flugmálastjórn telur ekki fýsilegt að flytja innanlandsflugvöll á völl sunnan Hafnarfjarðar vegna óhagstæðs veðurfars og nálægðar við Keflavíkurflugvöll." Í yfirlýsingum samgönguráðherra, nú síðast í grein hans í Morgunblaðinu sl. sunnudag, hefur hann ítrekað staðfest að flugvöllur í Hvassahrauni sé ekki talinn raunhæfur kostur.
Flugleiðir, og þau eldri flugfélög sem stofnuðu félagið, eiga að baki 63 ára samfellda reynslu af íslenskum flugrekstri. Maður skyldi því ætla, að til þeirra yrði leitað um álit varðandi gerð hugsanlegs nýs flugvallar sem miðstöðvar innanlandsflugsins í stað núverandi Reykjavíkurflugvallar. Ég hef það skriflega staðfest frá bæði forstjóra Flugleiða og framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands, að þeir aðiljar, sem undanfarið ár hafa verið að huga að og viðra opinberlega hugmyndir um nýja flugvelli á sjávarfyllingum úti í Skerjafirði og á hrauninu sunnan Hafnarfjarðar, hafi aldrei haft samband við þá eða aðra yfirmenn eða sérfræðinga flugfélaganna um slíka kosti. Það liggur reyndar löngu ljóst fyrir, að bæði flugfélögin hafna alfarið hugmyndum um þessa flugvelli sem ónothæfum fyrir grunnþarfir reglubundins áætlunarflugs.
Miðað við framangreint skiptir því engu máli hvort forsvarsmenn Reykjavíkurborgar telji t.d. Hvassahraun bókhaldslega áhugaverðan kost. Sömu aðiljar hafa ítrekað staðfest að gerð og rekstur íslenskra flugvalla sé áfram alfarið á vegum ríkisins, og að Reykjavíkurborg hafi ekki í huga að byggja neinn flugvöll. Þá hafnaði bæjarstjóri Hafnarfjarðar því 17. jan. sl. að til greina komi að gera flugvöll á þessum stað. Hvers vegna er þá hugsanlegur nýr flugvöllur í Hvassahrauni enn kynntur sem kostur í kynningargögnum borgarinnar?
Keflavíkurflugvöllur
Frá upphafi umræðna um þetta mál hafa samgönguyfirvöld og flugrekendur margbent á, að verði flugvellinum vísað úr höfuðborginni, muni umrædd flugstarfsemi þurfa að flytjast til Keflavíkurflugvallar. Ýmsir þingmenn og sveitarstjórnarfulltrúar á Suðurnesjum hafa reyndar ítrekað hvatt til slíkrar lausnar, og ekki að ástæðulausu, því þeir átta sig vel á því að þangað myndi þá flytjast fjöldi mjög verðmætra starfa frá höfuðborginni.
Þeir kjósendur höfuðborgarinnar, sem nk. laugardag hyggjast greiða atkvæði með því að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni eftir 2016, verða því að gera sér vel ljóst að þeir eru þá jafnframt að greiða því atkvæði að öll umrædd flug- og ferðaþjónusta flytjist frá Reykjavík til Keflavíkur.
Lokaorð
Ég hvet hins vegar íbúa höfuðborgarinnar til að láta skynsemi sína ráða í þessu máli og mæta vel á kjörstað á laugardaginn. Þar er rétt að hafa í huga þá miklu þýðingu sem Reykjavíkurflugvöllur hefur almennt á sviði öryggismála landsins og borgarinnar í víðtækasta skilningi, og jafnframt grunnhlutverk hans í áframhaldandi þróun íslenskrar flug- og ferðaþjónustu. Greiðum atkvæði með því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni eftir árið 2016.
Höfundur er verkfræðingur.“
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 14.10.2015 kl. 13:40
„1. nóvember 2013 | Aðsent efni | 672 orð | 1 mynd
Leit að flugvallarstæði
Eftir Leif Magnússon
Fyrsta leitin fór fram á vegum skipulagsnefndar Reykjavíkur á árunum 1938-1940, og var ákveðin í kjölfar bréfs atvinnu- og samgöngumálaráðuneytis til bæjarstjórnar Reykjavíkur, dags. 11. okt. 1937, en með því fylgdi uppdráttur af flugvelli í Vatnsmýri, sem Gústaf E. Pálsson verkfræðingur hafði gert 12. sept. 1937. Á vegum nefndarinnar var gerð „nákvæm rannsókn“ á eftirfarandi sjö stöðum, hér raðað í stafrófsröð: Bessastaðanes, Flatir (austan Rauðhóls upp af Hólmi), Kapelluhraun (sunnan Hafnarfjarðar), Kringlumýri, Melar (ofan við Ártún), Sandskeið og Vatnsmýri.
Í bréfi nefndarinnar til bæjarstjórnar, dags. 5. mars 1940, er mælt með flugvelli í Vatnsmýri, og samþykkti bæjarráð þá tillögu fyrir sitt leyti á fundi sínum 8. mars 1940, og staðfesti þá ákvörðun daginn eftir með bréfi til nefndarinnar. Í kjölfar hernáms Íslands 10. maí 1940 fór breska setuliðið fljótlega að huga að gerð flugvallar í Reykjavík, og hófust þær framkvæmdir í október á því svæði í Vatnsmýrinni, sem bæjarstjórn hafði áður ákveðið. Var flugvöllurinn síðan formlega opnaður fyrir flugumferð 4. júní 1941.
Önnur leitin fólst í störfum „Flugvallarnefndar 1965-1967“, sem Ingólfur Jónsson samgönguráðherra hafði skipað „til að gera tillögur að framtíðarskipan flugvallarmála Reykjavíkur“. Þá höfðu Loftleiðir þegar tekið í notkun stórar CL-44 skrúfuþotur, sem ekki gátu notað Reykjavíkurflugvöll, og flugu því um Keflavíkurflugvöll. Flugfélag Íslands stefndi þá að kaupum á nýrri farþegaþotu, sem raunhæft þurfti einnig þá lengd flugbrauta, sem aðeins Keflavíkurflugvöllur bauð upp á.
Nefndin beindi augum sínum fyrst og fremst að Álftanesi, en klofnaði í niðurstöðum sínum. Þriggja-manna meirihluti mælti með „X-kosti“ á Bessastaðanesi, sem var tveggja til þriggja flugbrauta flugvöllur fyrir innanlandsflug, og þar sem lengsta flugbrautin var 1.800 m. Tveggja manna minnihluti vildi frekar „L-kost“, sem var mun stærri flugvöllur með tveimur flugbrautum, allt að 2.700 m að lengd, og ætlaður bæði fyrir innanlands- og millilandaflug.
Með bréfi Hannibals Valdimarssonar félagsmálaráðherra til skipulagsstjórnar ríkisins, dags. 1. júní 1973, fengu þessar hugmyndir hins vegar afgerandi endi. Í bréfinu er rakinn fram kominn ágreiningur um skipulagsmál, m.a. mótmæli hreppsnefndar Bessastaðahrepps við því „að flugvöllur verði staðsettur á Álftanesi“. Bréfinu lýkur síðan með eftirfarandi ályktunarorðum: „Í aðalskipulagi Bessastaðahrepps skal ekki gera ráð fyrir að flugvöllur kunni að verða staðsettur í landi Bessastaða, Breiðabólsstaða og Akrakots.“ Þar með var formlega aflétt fyrri hömlum á byggð á Álftanesi, sem settar höfðu verið vegna hugsanlegs flugvallar á svæðinu.
Með bréfi Zóphoníasar Pálssonar, skipulagsstjóra ríkisins, til samgönguráðuneytis, dags. 25. júní 1973, er framangreind ákvörðun félagsmálaráðherra formlega kynnt. Í reynd var það bréf með öllu óþarft, því Hannibal var á þessum tíma bæði félagsmála- og samgönguráðherra!
Þriðji leitarleiðangurinn var svo á vegum samráðsnefndar samgönguráðuneytis og Reykjavíkurborgar, sem í apríl 2007 skilaði skýrslu sinni, „Reykjavíkurflugvöllur – úttekt á framtíðarstaðsetningu“. Sjö manna vinnuhópur á vegum nefndarinnar ákvað að skoða nánar eftirfarandi 13 staði, aðra en Vatnsmýri og Keflavíkurflugvöll, og hér raðað í stafrófsröð: Afstapahraun, Bessastaðanes, Engey, Geldinganes, Hafnarfjörður, Hólmsheiði, Hvassahraun, Löngusker, Melanes, Mosfellsheiði, Sandskeið, Selfoss og Tungubakkar.
Eftir nánari umfjöllun ákvað samráðsnefndin að þrengja valið í sjö kosti, þ.e. fjóra mismunandi kosti flugvallar í eða við Vatnsmýri, Hólmsheiði, Keflavík og Löngusker. Í niðurstöðum nefndarinnar sagði: „Núverandi flugvöllur er á mjög góðum stað frá sjónarmiði flugsamgangna og flugrekenda. Rannsaka ber til hlítar möguleika á flugvallarstæðum á Hólmsheiði og Lönguskerjum með tilliti til veðurfars og flugskilyrða.“
Nú, þegar fjórði leitarleiðangurinn hefst, en honum á að ljúka fyrir árslok 2014, þurfa leitarmenn einnig að hafa til hliðsjónar eftirfarandi ákvæði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, sem formennirnir kynntu 22. maí s.l.: „Reykjavíkurflugvöllur er grundvallarþáttur í samgöngum landsins. Til þess að hann geti áfram gegnt því mikilvæga þjónustuhlutverki, sem hann hefur gert gagnvart landinu öllu, þarf að tryggja framtíðarstaðsetningu hans í nálægð við stjórnsýslu og aðra þjónustu.“
Umrædd stjórnsýsla og önnur þjónusta, m.a. miðlæg heilbrigðisþjónusta fyrir alla landsmenn, mun nú vera svo til öll staðsett í 101 Reykjavík, og þrengir það leitarsvæðið töluvert.
Höfundur er verkfræðingur.“
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 14.10.2015 kl. 13:42
Athugasemd mín fjallaði aðallega um staðsetningu millilandaflugvallar. Athugasemdirnar sem komu virðast aðallega varða staðsetningu innanlandsflugs.
Finnur Hrafn Jónsson, 14.10.2015 kl. 14:10
Finnur.
Þú skrifaðir :
„Gæti einnig nýst fyrir innanlandsflugvöll“
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 14.10.2015 kl. 14:14
Finnur
Það sem hefur verið bent á hér að ofan varðar einnig aðstæður í Hvassahrauni sem gera það afleitan kost fyrir millilandaflug ekki síður.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 14.10.2015 kl. 14:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.