24.9.2014 | 17:36
Árás á fársjúka einstaklinga
Eina hugsanlega niðurstaðan ef þetta frumvarp er samþykkt er að spilafíklum á Íslandi fjölgar.
Vitað er að 1-2% fólks hefur tilhneigingu til að þróa með sér spilafíkn sem getur lagt líf þess í rúst. Spilafíkn hefur verið opinberlega viðurkenndur geðsjúkdómur á Íslandi í áratugi.
Spilakassar og spilavíti hafa reynst mun áhrifaríkari til að virkja spilafíkn í fólki en hefðbundin happdrætti og lottó. Þeir sem leggja þetta að jöfnu hafa greinilega ekki kynnt sér málið.
Með því að lögleiða spilavíti er verið búa til löglega aðferð fyrir siðblinda peningamenn til að féfletta og rústa lífi fársjúks fólk sem eru spilafíklar. Nær væri að banna spilakassana sem hafa valdið ómældum hörmungum hjá fjölmörgum hér á Íslandi.
Spilafíklar eru þægilegur markhópur sem ekki er fær um að bera hönd fyrir höfuð sér. Aðstandendur spilafíkla er flestir líka svo uppteknir af því fást við fjölskylduvandamálin sem skapast í tengslum við fíknina að þeir eiga ekki eftir orku í baráttu á öðrum vettvangi.
Ef menn telja örlög spilafíkla vera ásættanlegan fórnarkostnað í nafni frelsis leyfi ég mér að efast um siðferðiskennd þeirra sem hafa slíka afstöðu.
Vonandi eru nægilega margir þingmenn á Alþingi með eðlilega siðferðiskennd til að stöðva þetta frumvarp.
Vilja lögleiða fjárhættuspil | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:40 | Facebook
Athugasemdir
Hefta frelsi 98 til að minnka líkurnar á að 1 eða 2 leggi líf sitt í rúst. Með sömu rökum má banna smjör, kók, áfengi og tóbak, reiðhjól, bíla, fjallaferðir, kerti, íbúðarkaup og landbúnað. Það þarf ekki fjárhættuspil til að fólk fari sér að voða. Auk þess sem öllum er frjálst að spilal á netinu ef síðan er erlend. Bannið er því tímaskekkja sem beinir fjármagninu úr landi en kemur ekki í veg fyrir fjárhættuspil.
Ufsi (IP-tala skráð) 24.9.2014 kl. 18:10
Sumt af því sem við þurfum nauðsynlega getur verið einhverjum skaðlegt. Sumt hefur að baki langa hefð í okkar samfélagi. Spilavíti eru ekki nauðsyn í neinum skilningi og eiga sér enga hefð hér, spilakassar mjög stutta.
Langflestum af þessum 98 gæti ekki verið meira sama hvort þeir komist í spilavíti. Sem betur fer hafa langflestir vit á því að forðast þessa staði. 1-2 % hljómar ekki mikið en telja samt þúsundir á Íslandi.
Við bönnum ekki bíla vegna þess að þeir eru gagnlegir í samfélagi okkar. Ekkert er að því að bera saman ávinninginn af því að leyfa eitthvað miðað við að banna það. Mikið af lagasetningu er niðurstaðan af slíkri skoðun.
Fjárhættuspil á netinu er vaxandi meinsemd sem þrífst með aðstoð íslensku kortafyrirtækjanna sem miðla greiðslunum út. Í Bandaríkjunum var kortafyrirtækjum sérstaklega bannað að taka þátt í þessu. Paypal líka. Bannið í Bandaríkjunum virkaði það vel að hlutabréfaverð í netspilafyrirtækjum utan Bandaríkjanna sem gerðu út á Bandaríkjamarkað hrundi.
Þessi sjálfhverfa hugsun að ÉG megi gera allt sem mig langar til, óháð því hvort aðrir bíða skaða af finnst mér ekki bera vitni um mikinn þroska.
Loks má nefna að hegningalögum er bannað að nýta sér neyð annarra til að hafa af þeim fé. Ef spilavíti yrðu leyfð, þyrfti að fella þá lagagrein niður.
Finnur Hrafn Jónsson, 24.9.2014 kl. 18:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.