2.2.2010 | 09:14
Climategate og Veðurstofan
Í prentútgáfu Guardian í dag 2. febrúar, er forsíðufrétt, þar sem fjallað er um nýjar ásakanir um að gallar í mæligögnum um hitafar á jörðinni hafi verið faldir.
Um er að ræða gögn á vegum University of East Anglia Climate Research Unit (CRU), sem hefur verið ein helsta heimild IPCC nefndar Sameinuðu þjóðanna um hlýnun síðustu áratugi. Mikil hlýnun síðustu áratugi er að sjálfsögðu ein meginstoð fullyrðinga IPCC um að hlýnun á jörðinni undanfarið sé manngerð. Ef í ljós kemur að hún hafi verið ýkt eins og margir halda fram, er ljóst að verulega hriktir í stoðum kenninga IPCC.
CRU hefur verið mikið í alþjóðlegum fréttum undanfarið vegna svokallaðs "Climategate" máls þar sem tölvupóstum og fleiri gögnum var lekið á netið. Tölvupóstarnir þóttu sýna fram á óheiðarleg vinnubrögð og vísindafúsk. Phil Jones, yfirmanni CRU hefur verið vikið frá störfum á meðan árannsókn málsins stendur.
Gögnin sem nú eru í fréttum varða hitafarsmælingar frá Kína sem voru unnin af Wei-Chyung Wang í ríkisháskóla New York Univerisity of Albany og síðan notuð að því er virðist gagnrýnislaust í CRU. Wang segist nú ekki finna gögnin sem úrvinnslan hans byggðist á.
Vísindamenn frá Englandi, Bandaríkjunum, Indlandi og víðar hafa blandast í fréttir af fúski í úrvinnslu veðurfarsgagna og tilraunum til að sópa óþægilegum staðreyndum undir teppið. Fullyrðingar um alþjóðlegt samsæri til að breiða yfir fúskið geta ekki talist óeðlilegar miðað við þær fréttir sem hafa borist. Hversu víðtækt má deila um, en þegar er um að ræða eina af meginstoðum IPCC nefndar Sameinuðu þjóðanna hlýtur þetta að teljast alvarlegt.
Frétt Guardian á netinu: http://www.guardian.co.uk/environment/2010/feb/01/leaked-emails-climate-jones-chinese
Í ljósi þessarar fréttar og fleiri slíkra vekur furðu að í tengslum við þessi mál gefur íslenska Veðurstofan út eftirfarandi yfirlýsingu:
"Veðurstofan sér ástæðu til þess að vísa á bug ásökunum um umfangsmikið samsæri vísindamanna sem hún telur engan fót fyrir."
Sjá grein hér: http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/1805
Eftirfarandi má sjá í gögnum sem hefur verið lekið:
- Ítrekað hefur verið reynt að komast hjá því að verða við óskum um að afhenda gögn, þó óskin hafi verið byggð á bresku upplýsingalögunum.
- Sendir hafa verið tölvupóstar milli landa með tilmælum um að eyða póstum sem gætu reynst óþægilegir ef þeir væru birtir.
- Margsinnis hefur það gerst að gögn sem eru forsendur fyrir mikilvægum rannsóknaniðurstöðum finnast ekki. Varla er hægt að ímynda sér alvarlegra brot á viðurkenndu verklagi við vísindarannsóknir.
- Forrit fyrir úrvinnslu gagna eru sum hver í slíku ástandi að fyrsta árs nemi í tölvunarfræði yrði felldur ef hann skilaði slíkri vinnu.
Er það forsvaranlegt að íslenska Veðurstofan taki að sér að verja slík vinnubrögð?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)