28.5.2009 | 12:23
Fyrningarleið og hvað svo?
Stefna ríkisstjórnarinnar er að fyrna 5% af kvótanum árlega þannig að eftir 20 ár verði hætt að úthluta kvóta með núverandi kerfi. Stjórnarsáttmálinn er fáorður um það sem á að taka við. Rætt er um sanngjarnt kvótakerfi þar sem hætt er að gefa kvóta en eftir er að skilgreina útfærslu nánar.
Vel má ímynda sér að andstaða við fyrningu stafi af einhverju leiti af því að lítið er vitað um það sem tekur við. Óháð því hvaða leið verður valin, verður ekki undan því vikist að velja þarf þá sem eiga að veiða fiskinn ef fleiri vilja veiða en framboð af kvóta segir til um.
Eina hugsanlega og ásættanlega niðurstaðan er sú að kvótinn verði boðinn upp. Allt annað veldur deilum og leiðir til spillingar. Hins vegar skiptir máli hvernig staðið er að því að bjóða kvótann upp.
Nauðsynlegt er að þetta sé útfært þannig að hagkvæmni í rekstri útgerða ráði því hverjir eigi mesta möguleika á að fá kvótann en ekki aðgangur að fjármagni. Möguleiki þarf að vera á endurnýjun í greininni. Einnig þarf að sjá til þess að röskun verði sem minnst og kvótinn dreifist eðlilega um landið.
Tillaga að uppboðskerfi fyrir kvóta
- Allur veiddur fiskur fari á fiskmarkað til að skapa viðmiðun um greiðslur. Í þeim tilvikum þar sem erfitt er að koma fiskinum inn á markaðsgólf eins og t.d. hjá frystitogurum er hægt að miða við meðal markaðsverð þegar fiskur er veiddur.
- Allur kvótinn sé boðinn til sölu á uppboði til eins árs í senn. Skilyrði sé sett um að kvótinn sé nýttur innan 12 mánaða.
- Útgerð geri tilboð í ákveðið magn af tiltekinni tegund með því að bjóða ákveðna prósentu af aflaverðmæti sem fæst við löndun á markaði. Kvótagjald sé greitt sé um leið og fiskmarkaður greiðir fyrir fisk eftir löndun.
- Heildarkvótanum yrði skipt niður í nokkra potta eftir landshlutum þar sem byggt yrði á veiðireynslu í landshluta. Með þessu væri gerð krafa um að útgerðarstaður og/eða löndunarstaður útgerðar væri í þeim landshluta sem kvótinn tilheyrir.
- Viðskipti með kvóta innan landshluta yrðu leyfileg innan 12 mánaða tímabils sem kvótinn stendur.
- Kvóti sem útgerðaraðili nær ekki að nýta sé framseldur öðrum. Að öðrum kosti greiðir útgerð kvótagjald eins og meðalverð á markaði segir til um. Ef ekki tekst að framselja kvóta á sömu eða betri greiðsluprósentu en upphaflega tilboðið hljóðaði upp á, þarf upphaflegi útgerðaraðilinn að standa skil á því sem vantar upp á.
Rök fyrir tillögu
Aðferðin er sanngjörn, skilar þjóðinni eðlilegum arði af auðlindinni, leiðir til hagkvæmrar nýtingar á fiskimiðum og lágmarkar tilkostnað við veiðar. Kerfið er hlutlaust gagnvart útgerðaraðilum.
Hvati til brottkasts hverfur vegna þess að greidd er prósenta af markaðsverðmæti en ekki krónutala af hverju kílói.
Rökin fyrir því að bjóða allan kvótann upp árlega eru þau að ekki er vitað nema eitt ár fram í tímann hversu mikið er óhætt að veiða af hverri tegund. Betri tilboð ættu líka að fást í kvótann þegar útgerð þarf ekki að taka tillit til óvissu um aflamagn langt fram í tímann.
Landshlutaskipting kvótauppboða tryggir að uppboðin leiða ekki til tilfærslna á milli landshluta sem valda mikilli röskun eins og getur gerst í núverandi kvótakerfi.
Greiðsla kvótagjalds við löndun þýðir að ekki er þörf á fjármögnun kvótakaupa áður en veiðar hefjast. Þess vegna gætu duglegir sjómenn hafið útgerð með því að leigja bát á meðan þeir eru að komast af stað.
Framseljanlegir kvótar eftir upphaflegt uppboð skapa nauðsynlegan sveigjanleika. Útgerðir hafa möguleika á viðskiptum með kvóta sín á milli innan kvótaársins. Kanna mætti þann möguleika að í stað þess að allur kvótinn yrði boðinn upp einu sinni á ári, væru uppboð t.d. ársfjórðungsleg eða mánaðarleg þar sem 1/4 eða 1/12 hluti árskvótans væri boðinn upp í senn.
Kvótagjald sem miðast við prósentu af aflaverðmæti hefur þann kost að áhætta af sveiflum í markaðsverði hefur minni áhrif á afkomu útgerðar en fast gjald per kg af fiski. Einnig hagnast báðir aðilar, það er ríki og útgerð ef markaðsverð er hátt.
Þar sem tilboð í kvóta felur ekki í sér útgjöld í upphafi er tekið á því í tillögu hvernig fyrirbyggja þarf að útgerðir geri tilboð í meira magn af kvóta en þær hafa raunveruleg not fyrir. Skilyrði um skil á greiðsluprósentu ættu að fyrirbyggja að gerð séu tilboð í mikið magn af kvóta með það í huga að braska með hann. Hugsanlega þyrfti einnig að setja skilyrði um að bátar sem útgerð hefur yfir að ráða hafi nægilega veiðigetu til að veiða magn sem boðið er í.
Allt tal um að sjávarútvegurinn geti ekki skipulagt sig í kvótauppboðskerfi er hræðsluáróður. Fiskverkendur sem byggja á fiski frá fiskmörkuðum kaupa fisk daglega á uppboði án þess að séð verði að það valdi þeim vandræðum. Olíufélög kaupa olíu á markaði til að dreifa og selja án þess að kvarta.
Ljóst er að þegar stórt hlutfall af kvóta á Íslandsmiðum verður boðið upp, mun kvótagjaldið lækka mikið frá þeim jaðarverðum sem nú eru í gangi.
Höfundur er verkfræðingur og tölvunarfræðingur. Á yngri árum tók hann þátt í útgerð og stundaði sjómennsku á minni bátum.
(birt í Morgunblaðinu 28. maí 2009)Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.6.2009 kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.5.2009 | 21:32
Áróðursherferð kvótagreifa
Ég skora á ríkisstjórnina að láta ekki hræða sig frá því að framfylgja boðaðri stefnu í sjávarútvegsmálum.
Þjóðin er búin að fá sig fullsadda á þeirri siðblinduvæðingu sem hófst með gjafakvótakerfinu og náði hámarki með hruni bankanna.
Með eða án innköllunar er ljóst að nákvæmlega jafnmikill fiskur kemur á land og útflutningsverðmæti haldast óbreytt. Það eina sem gæti breyst er að smátt og smátt gæti orðið bráðnauðsynleg endurnýjun í útgerðaraðilum og arðurinn rennur til þjóðarinnar en ekki kvótagreifa.
Ályktun Samtaka fiskvinnslustöðva segir okkur ekkert annað en að þar eru meira og minna sömu aðilar á ferðinni og í LÍU sem vilja halda áfram að fá gjafakvóta.
SF leggst gegn hugmyndum um fyrningarleið í sjávarútvegi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.5.2009 | 21:16
Hræðsluáróður kvótagreifa
Þrotabú og kröfuhafar gömlu bankanna eiga skuldir útgerðarfyrirtækjanna. Það er síðan samningsatriði milli nýju bankanna í eigu ríkisins og þrotabúanna að hve miklu leyti skuldir flytjast yfir í nýju bankanna og á hvaða gengi. Ekki er búið að semja um það enn. Treysta verður því að samningamenn ríkisins álpist ekki til að semja af sér þannig að kvótinn verði metinn einhvers virði.
Það er því algjör fásinna að halda því fram að nýju bankarnir þurfi að bera skaða af lélegum lánum til útgerðar. Þeir sem voru nógu vitlausir að taka kvóta sem veð fyrir lánum eiga að gjalda fyrir þá heimsku með peningatapi sínu.
Innkallaður kvóti sem yrði síðan settur á uppboð myndi seljast á nákvæmlega því verði sem greiðslugeta kaupenda segir til um, hvorki meira né minna. Ef hún er litil vegna fyrri skuldsetningar verður að hafa það.
Þá væri kannski von til þess eðlileg endurnýjun gæti hafist aftur í sjávarútvegi sem ekki hefur verið undanfarin ár.
Mun setja bankana aftur í þrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.12.2008 | 13:30
Hvað með kenningu Svensmarks?
Þetta er í fullkominni andstöðu við niðurstöður Svensmarks sbr. ágæta samantekt Ágústs Bjarnasonar: http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/128319/
Einnig verður áhugavert að sjá niðurstöðuna af CLOUD rannsókn CERN sem er ætlað að kanna áhrif geimgeisla á skýjamyndun.
Engin tengsl sögð vera á milli geimgeisla og loftlagsbreytinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.11.2008 | 16:21
Rangar skoðanir í loftslagsmálum brottrekstrarsök á Mbl.?
Sigurður Grétar Guðmundsson pípulagningameistari skrifaði grein í Morgunblaðið í dag, 27. nóv. þar sem hann kveður lesendur eftir 16 ára samfylgd í dálkum sínum Lagnafréttir í Fasteignablaði Morgunblaðsins.
Þar sem ég hef oft gluggað í dálka hans og haft gagn og gaman af, fór ég að lesa hvað hann skrifaði um ástæður þess að hann hætti.
Í stuttu máli var honum einfaldlega sagt að pistill frá honum hefði verið yfirfarinn af "hlutlausum aðila" og hefði reynst vera faglega rangur. Ekki fékkst uppgefið hver þessi "hlutlausi aðili" var.
Einnig var sagt frá því að margar kvartanir hefðu borist vegna skrifa hans um loftslagsmál. Ekki tek ég undir það. Mér fannst skrif Sigurðar um þau efni mun skynsamlegri en gengur og gerist í Morgunblaðinu um þau mál. Að sjálfsögðu má deila um hvort hann sé ekki komin of langt frá efni dálksins í þeim skrifum en þá hefði verið einfalt að flytja greinarnar yfir í viðhorfsdálk eða almennar greinar blaðsins.
Magnús Jónsson þáverandi Veðurstofustjóri skrifaði grein fyrir 10 árum eða svo í Morgunblaðið þar sem hann varaði við skoðanakúgun í tengslum við loftslagsmál. Ég sé ekki betur en það hafi verið full ástæða til.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.4.2008 | 12:45
Óþægilegar staðreyndir um rangfærslur Gore
Ætli einhver hafi spurt Gore um dómsúrskurð í Lundúnum á síðasta ári þar sem heimildamynd hans var ekki talin hæf til birtingar fyrir skólanemendur nema með athugasemdum og útskýringum á því hvað væri rangt farið með í myndinni. - sjá hér: http://www.timesonline.co.uk/tol/news/uk/science/article2632660.ece
Einnig mætti spyrja Gore um hvað honum finnst um að hlýnun hefur stöðvast á jörðinni síðustu 8 ár eða svo. Þar að auki var síðasta ár óvenju kalt.
Loks mætti spyrja Gore um það hvort hann sé trúverðugur í sínum málflutningi þar sem hann er stór hluthafi í fyrirtæki sem hefur það að meginmarkmiði að braska með losunarkvóta.
Þróun sem hægt er að stöðva | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.1.2008 | 17:39
Hvað með faglegt álit Vegagerðarinnar?
Getur maður ekki treyst því að tekið verði tillit til faglegs álits Vegagerðarinnar sem taldi brú mun hagkvæmari kost í byggingu og rekstri. Einnig taldi hún brúna betri kost hvað varðaði minni röskun, afköst og umferðartengingar.
Verður ekki hægt að treysta því að þeir sem opinberlega hafa kvartað undan því að ekki hafi verið tekið tillit til faglegra álita hvað varðar mannaráðningar o.fl. láti í sér heyra um þetta mál?
Borgin þrýstir á ríkið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.8.2007 | 19:07
Þetta hljóta að vera mistök
Stóriðjuandstæðingar á Íslandi hafa haldið því fram áratugum saman að almenningur væri að niðurgreiða raforkuverð til stóriðju. Til þess þarf orkuverð til almennings að vera hærra en ekki lægra en í nágrannalöndunum.
Nema stóriðjuandstæðingar hafi verið að bulla allan tímann!
Íslensk heimili greiða lægsta raforkuverð á Norðurlöndum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.7.2007 | 10:37
Íslenskir veðurfræðingar með efasemdir um gróðurhúsaáhrif?
Í desember síðastliðnum birtust stutt viðtöl við Þór Jakobsson og Trausta Jónsson veðurfræðinga í Viðskiptablaðinu, sjá grein:
Þeir voru spurðir einfaldrar spurningar: Eiga sér stað loftslagsbreytingar af mannavöldum?
Svör þeirra voru athyglisverð svo ekki sé meira sagt. Báðir gerðu skýran greinarmun á mati sínu á loftslagsbreytingum sem vísindamenn annars vegar og skoðun á því hvort ástæða væri til aðgerða hins vegar, sem væri pólitísk spurning. Því miður eru margir aðrir vísindamenn sem sjá ekki ástæðu til að greina þarna á milli.
Þór taldi málið flókið og spurningunni vandsvarað. Ef hann ætti tilneyddur að gefa upp prósentu um hlýnun af mannavöldum nefndi hann 10-15%. Hann taldi reyndar að það væri það alvarlegt að ástæða væri til að grípa til aðgerða.
Trausti hinsvegar nefndi enga tölu en sagði ljóst að hlýnun væri nær örugglega að einhverju leyti af mannavöldum. Hann sagði málið flókið og margþætt og erfitt að fullyrða nokkuð um það. Trausti vildi hins vegar ekkert segja til um hvort hann teldi að ástæða væri að grípa til aðgerða sem hann taldi pólitíska spurningu eða jafnvel siðferðilega.
Þessi svör eru í mikilli andstöðu við fullyrðingar ýmissa vísindamanna sem halda því fram að 90% af hlýnuninni undanfarið stafi nánast örugglega af mannavöldum og að málið sé afgreitt fræðilega. Einn veðurfræðingar frá Veðurstofu Íslands talaði um vísindalega staðreynd í þessu samhengi í blogg athugasemd hjá Einari Sveinbjörnssyni veðurfræðingi, sjá: http://esv.blog.is/blog/esv/entry/251390/#comments
Sem betur fer eru Þór og Trausti ekki einir vísindamanna um að vera varkárir í yfirlýsingum um hlýnun af mannavöldum. Því miður er eðli fjölmiðla þó þannig að þeir sem hafa uppi stórkarlalegar yfirlýsingar fá mestu umfjöllunina jafnvel þó að vísindagrunnurinn sé veikur.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.6.2007 | 13:19
Er hnatthlýnunin gabb? - fræðslumynd í RÚV 19 júní kl. 20:55
Mig langar að vekja athygli á áhugaverðri fræðslumynd í ríkissjónvarpinu sem verður sýnd annað kvöld. Enskt heiti hennar er "The Great Global Warming Swindle". Netútgáfan af þessari mynd hefur vakið þó nokkra athygli og umræður.
Í myndinni koma fram ýmsir vísindamenn sem vefengja að hnatthlýnun sé að mestu leyti af mannavöldum.
Myndin verður líka endursýnd á sunnudaginn 24. júní ásamt fræðslumyndum eftir David Attenborough sem taka fyrir hina hliðina.