Rangar skoðanir í loftslagsmálum brottrekstrarsök á Mbl.?

Sigurður Grétar Guðmundsson pípulagningameistari skrifaði grein í Morgunblaðið í dag, 27. nóv. þar sem hann kveður lesendur eftir 16 ára samfylgd í dálkum sínum Lagnafréttir í Fasteignablaði Morgunblaðsins.

Þar sem ég hef oft gluggað í dálka hans og haft gagn og gaman af, fór ég að lesa hvað hann skrifaði um ástæður þess að hann hætti.

Í stuttu máli var honum einfaldlega sagt að pistill frá honum hefði verið yfirfarinn af "hlutlausum aðila" og hefði reynst vera faglega rangur. Ekki fékkst uppgefið hver þessi "hlutlausi aðili" var.

Einnig var sagt frá því að margar kvartanir hefðu borist vegna skrifa hans um loftslagsmál. Ekki tek ég undir það. Mér fannst skrif Sigurðar um þau efni mun skynsamlegri en gengur og gerist í Morgunblaðinu um þau mál. Að sjálfsögðu má deila um hvort hann sé ekki komin of langt frá efni dálksins í þeim skrifum en þá hefði verið einfalt að flytja greinarnar yfir í viðhorfsdálk eða almennar greinar blaðsins.

Magnús Jónsson þáverandi Veðurstofustjóri skrifaði grein fyrir 10 árum eða svo í Morgunblaðið þar sem hann varaði við skoðanakúgun í tengslum við loftslagsmál. Ég sé ekki betur en það hafi verið full ástæða til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Finnur.

Ég tek undir með þér. Ég las yfirleitt skrif Sigurðar Grétars og hafði gagn af. Lærði margt sem nýttist vel.

Þar sem þú minnist á skrif veðurstofustjóra fyrir áratug:

Í grein í Morgunblaðinu ("RANNSÓKNIR Í HERKVÍ HAGSMUNA?" 31.10.'98) segir Magnús Jónsson þáverandi Veðurstofustjóriveðurstofustjóri meðal annars:

..."Síðustu tvo áratugina hafa umræður um svokallaða gróðurhúsaupphitun jarðarinnar orðið æ fyrirferðarmeiri, bæði hér á landi og annars staðar. Meðal vísindamanna voru og eru skiptar skoðanir á þessu máli, bæði hvort um sé að ræða raunverulega og varanlega upphitun jarðarinnar af völdum losunar gróðurhúsalofttegunda (aðalega koltvísýrings), hvernig hún dreifist yfir jörðina og hvort hugsanleg upphitun væri sá hnattræni vandi sem látið er í veðri vaka."

..."Er nú svo komið, að pólitísk nauðsyn, og oft stórfelldir efnahagslegir hagsmunir stórfyrirtækja og heilu samfélaganna, allt að því krefjast þess, að þetta sé einhver mesti umhverfisvandi heimsins. Og þegar einstaklingar, fyrirtæki eða þjóðir eiga orðið verðmæta koltvísýringskvóta verða efasemdir um upphitunarvandann barðar niður með alþekktum aðferðum skoðanakúgunar."

Í lok þessarar ágætu greinar Magnúsar Jónssonar, sem reyndar fjallar bæði um gróðurhúsavandann og ofveiðivandann, segir: "...Í öðru lagi veldur mér áhyggjum sú vaxandi tilhneiging þeirra, sem hafa efnahagslega hagsmuni af því að koma á útblásturskvótakerfi, til að gera lítið úr skoðunum efasemdarmanna og berja þannig niður akademíska hugsun og skoðanaskipti í þessu flókna og tiltölulega lítt þekkta máli".

 ---

Kannski Sigurður Grétar Guðmundsson ætti að skrifa á bloggsíðu. Varla færu menn að ritskoða þau skrif.

Ágúst H Bjarnason, 27.11.2008 kl. 17:36

2 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Ekki er að sjá annað en Morgunblaðið sé að dæma sjálft sig úr leik í umfjöllun um loftslagsmál.

Svona nokkuð fer ekki fram hjá öðrum starfsmönnum Morgunblaðsins. Þá liggur beint við að álykta að skrif þeirra muni miðast við að halda vinnunni frekar en fjalla hlutlægt um loftslagsmál.

Finnur Hrafn Jónsson, 27.11.2008 kl. 22:31

3 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Þetta eru slæmar fréttir, því að skrif Sigurðar hafa verið á meðal þess efnis sem bezt hefur verið í Morgunblaðinu. Þarna birtist annað svið sem fellur undir rétttrúnað Morgunblaðsins. Hitt sviðið er hryðjuverk Múslima.

Ég tek undir það sem þið segið, Finnur og Ágúst.

Kveðjur.

Loftur Altice Þorsteinsson, 28.11.2008 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband